Handbolti

Dagur gefur mömmu skýrslu eftir hvern leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
Það er létt yfir Degi Sig þessa dagana.
Það er létt yfir Degi Sig þessa dagana. Fréttablaðið/Eva Björk
Þýskaland mætir í dag heimamönnum í Katar í 8-liða úrslitum á HM í handbolta. Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafa spilað frábærlega á mótinu og fóru létt með Egyptaland í 16-liða úrslitunum.

„Sá leikur var bara í 40 mínútur,“ sagði Dagur á blaðamannafundi sínum í Doha í gær. Hann var spurður hvort hann hefði áhyggjur af því að Katar hefði fengið aukadag til að hvíla sig fyrir leikinn í dag. „Nei, við erum alveg nógu ferskir. Við hvíldumst vel fyrir leikinn gegn Sádi-Arabíu og það eru einfaldlega allir ferskir og heilir heilsu.“

Dómgæslan í leik Katars og Austurríkis í 16-liða úrslitunum var harkalega gagnrýnd en króatískir dómarar leiksins þóttu dæma heimamönnum heldur mikið í hag.

„Ég hef engar áhyggjur af dómgæslunni. Við einbeitum okkur að jákvæðum hlutum. Við erum að spila vel, það er góð stemning í hópnum og sólin skín.“

Hann var spurður hvort hann hefði fengið viðbrögð að heiman eftir gott gengi. „Ég er alltaf í sambandi við mömmu eftir hvern leik og þarf alltaf að gefa henni ítarlega skýrslu. En annars er allt með eðlilegum hætti,“ sagði hann og brosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×