Innlent

Vilja ekki að börnin séu sett í erfiðar aðstæður

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Vísir
„Það kom inn formlegt erindi frá Tannlæknafélaginu sem var skoðað ítarlega. Niðurstaðan var að þetta samræmdist ekki reglum borgarinnar því að þetta var merkt fyrirtækjum. Reglurnar eru alveg skýrar með það og ekki hægt að heimila að gefa börnum gjafir frá fyrirtækjum á skólatíma,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Í gær var sagt frá því á Vísi að ekki væri leyfilegt að gefa skólabörnum í Reykjavík gjafir á skólatíma sem merkt væru fyrirtækjum. Kom þar fram að börn í tíunda bekk, utan höfuðborgarsvæðisins, myndu í næsta mánuði fá gjöf í tilefni hinnar árlegu tannverndarviku. Í reglum borgarinnar segir að ekki megi afhenda grunnskólabörnum gjafir á skólatíma, séu á þeim merkingar. Þá var sagt frá því að Eimskip mætti ekki gefa börnum reiðhjólahjálma þar sem þeir væru merktir fyrirtækinu.

Skúli segir reglurnar eiga að vernda börn fyrir markaðssetningu á skólatíma.

„Þær lúta að því að það eigi ekki að setja börn og foreldra þeirra í þá aðstöðu að taka afstöðu til gjafa. Þær helgast af því að skólarnir séu ekki vettvangur fyrir markaðssetningu á tilteknum vörum,“ segir Skúli.

„Auðvitað er þetta erfitt því þetta er gert í góðum tilgangi. Auðvitað erum við sammála þessu á lýðheilsuforsendum. Reglurnar miða að því að það sé ekki verið að setja börn í þær aðstæður að fyrirtæki sé að gefa þeim merktar gjafir á skólatíma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×