Handbolti

Svona er staðan á HM-strákunum okkar

Íþróttadeild 365 skrifar
Aron Kristjánsson hefur í nokkur horn að líta fyrir HM.
Aron Kristjánsson hefur í nokkur horn að líta fyrir HM. Vísir/stefán
Strákarnir okkar spiluðu fimmta og síðasta æfingaleikinn í aðdraganda HM 2015 í Katar á sunnudaginn þegar liðið gerði jafntefli við Slóveníu. Í dag tekur við ferðalag til Katar þar sem lokaundirbúningur hefst fyrir leikinn gegn Svíum.

Íslenska liðið lítur ágætlega út, þó mun betur eftir að Aron Pálmarsson kom inn á móti Dönum þar sem hann deildi út stoðsendingum eins og hrískökum í barnaafmæli.

Sjá einnig:Lítill púki í Gaupa | Myndband

Sóknarleikurinn er allur að koma til, en liðið skoraði yfir 30 mörk gegn sterkum liðum Dana og Slóvena. Varnarleikurinn er aftur á móti mikill hausverkur og markvarslan líka áhyggjuefni. Vörn og markvarsla eiga þó oftast samleið og sé vörn í lagi verja strákarnir í rammanum sín skot.

Ísland er með leikreynt byrjunarlið með þrjá af bestu leikmönnum heims í þeim Guðjóni Val Sigurðssyni, Aroni Pálmarssyni og Alexander Peterssyni. Snorri Steinn og stórvinur hans Róbert Gunnarsson hafa svo upplifað þetta allt áður. Þetta verður að stóru leyti spurning um hvernig hinir strákarnir mæta til leiks.

Sjá einnig:Rúnar: Ætla ekki að taka Markussen á þetta

Fréttablaðið tekur hér stöðuna á öllum 17 leikmönnum liðsins sem fara með til Katar. Kostir og gallar þeirra eru dregnir fram og hvernig frammistaða þeirra hefur verið í undirbúningsleikjunum.

Sumir líta mjög vel út og virðast tilbúnir að sigra heiminn fyrir þjóðina enn eina ferðina, en aðrir eiga lengra í land og hafa mikið að sanna þegar komið verður á HM.

HM-strákarnir okkar 2015:

Björgvin Páll Gústavsson

Aðalmarkvörður liðsins lítur einfaldlega ekki nógu vel út. Varði aðeins 13 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig gegn Dönum og 22 prósent gegn Slóvenum, þó innkoma hans undir lokin hafi verið sterk. Verður að vera mun stöðugri, annars mun Aron byrja flesta leiki.

Aron Rafn Eðvarðsson

Var litlu skárri en Björgvin gegn Slóv­enum en stóð sig vel gegn Dönum þar sem hann varði ríflega 40 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Ekki enn nýtt sín tækifæri til fulls. Verður, eins og Björgvin, að vera stöðugri.

vísir/ernir
Guðjón Valur Sigurðsson

Var ekki með á æfingamótinu um helgina en það skiptir engu máli. Fyrirliðinn með 304 leiki og yfir 1.600 mörk á bakinu fyrir utan að vera besti vinstri hornamaður heims. Verður alltaf klár.

Stefán Rafn Sigurmannsson

Sýndi frábæra takta og heilsteyptan leik á báðum endum vallarins þegar hann fékk tækifærið í fjarveru Guðjóns Vals. Með afburða skotnýtingu og svo sannarlega arftaki fyrirliðans.

vísir/stefán
Aron Pálmarsson

Lykillinn að árangri Íslands á HM. Það sá hvert mannsbarn hversu miklu máli hann skiptir í leiknum gegn Dönum. Virðist vera mikill hugur í Aroni sem ætlar sér stóra hluti í Katar. Vera hans á vellinum gerir aðra betri og opnar dyr sem annars eru lokaðar.

Arnór Atlason

Slakur í undirbúningnum og gengur ekki heill til skógar eins og hann hefur staðfest sjálfur. Býr vitaskuld yfir miklum leikskilningi, en vantar þann kraft sem hann hefur búið yfir undanfarinn áratug. Er mjúkur, hægur og engin ógn stafar af skotum hans. Skoraði ekki í fjórum skotum gegn Slóvenum og Dönum.

vísir/ernir
Sigurbergur Sveinsson

Býr yfir miklum sprengikrafti og er óhræddur við að reyna að stökkva yfir varnir eða spóla sig í gegnum þær. Tekur oft slakar ákvarðanir og hangir of lengi á boltanum. Verður ekki sakaður um að reyna ekki. Hann getur komið sterkur inn í leiki en líka verið mistækur.

Snorri Steinn Guðjónsson

Heilinn í liðinu – þjálfarinn á vellinum. ­Keyrir kerfi liðsins af sömu fagmennsku og alltaf. Bindur liðið saman og er því gríðarlega mikilvægur. Ekki búast við skotum þó hann skori mikið í Frakklandi. Leikur hans með Íslandi er allt annar.

Gunnar Steinn Jónsson

Verður væntanlega 17. maður og horfir á flesta leiki úr stúkunni. Er í baráttu við Arnór, Aron, Snorra og Sigurberg um stöðu; þrír þeirra geta spilað skyttu og þrír stöðu leikstjórnanda. Heillaði ekki í undirbúningi fyrir mótið og kom valið á honum á óvart.

vísir/ernir
Alexander Petersson

Ekki verið eins ferskur lengi. Ótrúlegur kraftur og skotnýtingin til fyrirmyndar. Þar hjálpar til innkoma Arons, en saman mynda þeir ógnvænlegt skyttu­par. Getur líka búið sér til sín eigin skot með hráum krafti. Einn af betri bakvörðum heims í varnarleiknum og einhver flottasti alhliða leikmaður í bransanum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson

Eins og alltaf traustur varnarmaður og leysir sitt hlutverk nokkuð vel en ekkert meira en það. Sóknarleikurinn verður æ veikari; kraftlaus og doði yfir honum. Verður stundum farþegi í liði sem hann á að vera einn af reynsluboltunum í. Farinn að tapa of mörgum boltum.

Arnór Þór Gunnarsson

Pressa á honum á stóra sviðinu í fyrsta skipti. Leikmaður á stöðugri uppleið sem virðist vera andlega sterkur eins og sjá má á vítanýtingu hans. Lyktar eins og óvænt stjarna mótsins. Hornastaðan er hans að læsa næstu árin. Aðeins hann getur klúðrað því.

vísir/stefán
Sverre Jakobsson

Svanasöngur Sverre. Spilaði betur um helgina en leikirnir gegn Þýskalandi gáfu til kynna. Reynslubolti sem kann öll fræðin. Ef farið er rétt með hann og mínúturnar valdar rétt getur hann kvatt landsliðið með góðri frammistöðu og verið lykilmaður í vörninni.

Bjarki Már Gunnarsson

Enn á uppleið en ekki kominn alla leið. Frammistaðan í undirbúningnum verið misjöfn en inn á milli sjást kaflar sem lofa hrikalega góðu. Nautsterkur og hreyfanlegur, en er stundum plataður úr stöðu.

vísir/ernir
Kári Kristján Kristjánsson

Kemur með aðra vídd og meiri þyngd inn á línuna þegar á þarf að halda. Er eins og allir miklu betri með Aron inni á vellinum. Getur búið til færi fyrir sjálfan sig og aðra. Hefur tekið færin sín vel og lítur vel út.

Vignir Svavarsson

Mun meiri ábyrgð á honum í miðjublokkinni en oft áður þar sem mínútum Sverres fer fækkandi. Litið misvel út í vörninni og tilraunir með hann í sóknarleiknum gengið upp og ofan. Er fyrst og fremst varnarmaður í landsliðinu.

Róbert Gunnarsson

Eftir mikla þurrkatíð inni á línunni rignir nú aftur mörkum með innkomu Arons Pálmarssonar. Aron veit hvar hann er, Róbert veit hvar boltinn kemur og allir vita hvernig það samstarf enda; mark eða víti. Sjálfstraustið sem hefur einkennt hann virðist komið aftur. Byrjaður að skora „Robbamörk“ á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×