Handbolti

Skemmtileg ábyrgð að vera hetja eða skúrkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin er alltaf ákveðinn og bjartsýnn.
Björgvin er alltaf ákveðinn og bjartsýnn. vísir/ernir
„Við viljum auðvitað vera á öllum stórmótum. Við fórum kannski inn á sérstökum forsendum en við hugsum ekki um það heldur að standa okkur á mótinu,“ segir markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson.

Klisjan vörn og markvarsla vinna leiki er jafn gömul handboltanum og Björgvin þekkir vel þessa pressu. Hann er oftar en ekki annaðhvort hetja eða skúrkur.

„Ég held ég hafi valið þetta starf út af þessu. Þetta er skemmtileg ábyrgð. Samspil varnar og markvörslu skiptir gríðarlega miklu eins og sjá mátti á leikjunum gegn Þjóðverjum. Ef vörnin stendur vel þá erum við venjulega traustir á bak við og öfugt,“ segir Björgvin.

„Ég einbeiti mér mest að sjálfum mér. Það er að verða fyrir sem flestum boltum og ég tel okkur markmennina vera á góðri leið,“ segir Björgvin en hann hefur spilað vel í Þýskalandi í vetur og er klár í bátana.“

„Sjálfstraustið er mjög gott og ég er í toppstandi. Það er allt í mjög góðu jafnvægi fyrir mótið og vonandi ver ég fullt af boltum á mótinu. Ef ekki þá er það gamla klisjan um samspil varnar og markvörslu,“ segir Björgvin Páll og glottir við. Hann ætlar sér stóra hluti, eins og alltaf, í Katar.

„Við förum ekki sem túristar á þetta mót heldur ætlum við að ná árangri. Það er gaman að hafa allan hópinn og mér finnst við vera mjög einbeittir. Ég fer nokkuð bjartsýnn á þetta mót.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×