Handbolti

Verð ekki með jafnmikið hár og "Faxi“ þegar ég hætti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll er meðal annars þekktur í handboltaheiminum fyrir hárið sitt og það er hluti af ímynd hans.
Björgvin Páll er meðal annars þekktur í handboltaheiminum fyrir hárið sitt og það er hluti af ímynd hans. vísir/stefán
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður landsliðsins, er 29 ára gamall, giftur faðir. Hann skartar samt enn síðum ljósum lokkum og minnir meira á handboltarokkara en ábyrgðarfullan föður. Það var því ekki úr vegi að spyrja hann hvort lokkarnir fari ekkert að fjúka.

„Hárið fær að halda sér þar til mínum handboltaferli lýkur. Ég mun skoða að klippa það styttra þegar ég legg skóna á hilluna,“ segir Björgvin Páll kíminn og glottir við.

„Hárið er hluti af minni ímynd. Hluti af því að vera markvörður er að vera „týpa“. Það hafa margir markverðir í gegnum tíðina verið með sérstakt útlit sem fólk man eftir. Markvörður verður að vera aðeins öðru vísi eins og Króatinn Vlado Sola til að mynda,“ segir Björgvin en hann telur að það geti hjálpað markvörðum að standa sig betur.

„Hann var ekki góður markvörður en var stundum með bleikt hár og eitthvað í svipuðum dúr. Það skilaði honum nokkrum boltum stundum því menn vissu af honum. Það er allt hluti af þessu. Að láta fyrir sér fara á vellinum og vera áberandi.“

Gamli HK-ingurinn segir að útlitið sé því ákveðin taktík og hárið sé líka vörumerki hans.

„Myndu allir muna eftir Stefan Kretschmar ef hann hefði ekki verið með skrautlegt hár og tattú? Ég lofa í það minnsta að þegar ég hætti að þá verði ég ekki með eins mikið hár og Svíinn Staffan „Faxi“ Olsson.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×