„Þetta er búið að vera rosalega gaman. Hugur í hópnum og menn spenntir að takast á við þetta verkefni sem er framundan,“ segir Tandri Konráðsson en hann er nú í fyrsta skipti í æfingahópi landsliðsins fyrir stórmót.
Tandri kom inn í tvær sóknir og tvær varnir í seinni leiknum gegn Þjóðverjum.
„Fínt að fá að koma inn í jöfnum leik. Ég var bara ánægður að fá mínútur og þær verða vonandi fleiri í framtíðinni.“
Aron landsliðsþjálfari gaf það út í gær að hann myndi skera æfingahópinn niður um þrjá menn eftir leikinn gegn Svíum á morgun. Þá standa eftir 17 menn sem fara til Katar. Tandri er klárlega einn þeirra sem munu berjast fyrir tilverurétti sínum í hópnum í þeim leik.
„Við eigum að fá að spila þar. Eins og staðan er núna er ég ekkert rosalega bjartsýnn á að komast í lokahópinn. Ég verð ánægður með þann tíma sem ég fæ á föstudaginn og svo ætla ég mér að komast betur inn í þetta. Þetta er hörkuhópur og erfitt að komast í hann,“ segir Tandri en hann verður ánægður með tímann sama hvort hann fer til Katar eður ei.
Tandri: Ekki bjartsýnn á að komast í hópinn
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
