Fyrir öll UFC-kvöld þurfa þeir sem berjast í stærstu bardögunum að mæta á opna æfingu. Æfa fyrir framan fjölmiðla og áhorfendur.
Þetta er venjulega hin mesta kvöð fyrir marga bardagakappa en þeir fjórir sem æfðu í gær voru nokkuð jákvæðir og tóku þokkalega á því.
Enginn þó meira en Írinn Conor McGregor. Síðasta sumar tók hann 50 mínútna æfingu og sinnti svo aðdáendum sínum í rúman hálftíma.
Hann tók ekki eins langa æfingu í gær en þó hina lengstu. Tók virkilega á því og var í fullum herklæðum allan tímann og þess utan með húfu.
Ástæðan er sú að hann er auðvitað í niðurskurði og vigtunin fer fram í kvöld.
Conor er stærri en flestir í hans vigt og þarf iðulega að taka fleiri kíló af sér en hinir og er það mikil og erfið vinna.
Svo mikil að mönnum leist vart á hann er hann steig á vigtina síðasta sumar. Hann leit alls ekki vel út. Heildaræfingar og niðurskurður hefur gengið mun betur núna og hann ætti því að líta betur út á vigtinni að þessu sinni.
Bardagakvöldið stóra með Gunnari Nelson og Conor McGregor verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hægt er að kaupa áskrift á 365.is. Íþróttadeild 365 er í Las Vegas og flytur ykkur nýjustu tíðindi. Fylgstu með á Facebook, Twitter og Snapchat: sport365.
