Innlent

Yfir tuttugu þúsund manns hafa komið í ísgöngin í Langjökli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sigurður Skarphéðinsson við munna ísganganna þegar gerð þeirra var á lokametrunum.
Sigurður Skarphéðinsson við munna ísganganna þegar gerð þeirra var á lokametrunum. Fréttablaðið/Stefán
Vel yfir tuttugu þúsund manns hafa komið inn í ísgöngin í Langjökli frá því þau voru opnuð almenningi 1. júní í sumar.

Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Into the Glacier sem rekur ísgöngin segir aðsóknina hafa verið vonum framar.

„Upphaflega ætluðum við að vera með daglegar ferðir út september og fara síðan tvisvar í viku. Í lok september ákváðum við að fara daglega út október og síðan ákváðum við að vera líka með daglegar ferðir í nóvember. Svo um miðjan nóvember ákváðum við að keyra bara alla daga, allt árið – nema þegar það er brjálað veður,“ segir Sigurður.

Fyrst og fremst er það erlendir ferðamenn sem skoða ísgöngin að sögn Sigurðar. Fram á haust hafi þeir flestir farið á eigin bílaleigubílum upp í Húsafell og voru fluttir þaðan en nú í vetur eru þeir flestir fluttir alla leið úr bænum.

„Það sem hefur komið okkur hvað mest á óvart er hversu þeir ferðamenn sem eru á Íslandi er með lítil plön. Ótrúlega margt af þessu fólki bókar sig með aðeins tólf til fjórtán tíma fyrirvara í ferð hjá okkur,“ segir Sigurður.

Jarðskjálfti af stærðinni 3,2 á Richter varð á fimmtudagsmorgun í Geitlandsjökli í Langjökli með upptök á svipuðum slóðum og ísgöngin eru. Sigurður segir engan hafa verið í göngunum þá. Líklegast sé að áhrifa skjálftans hafi ekki gætt þar.

„Jökullinn er eins og seigfljótandi hunang og gleypir svona skjálfta,“ útskýrir Sigurður og bendir á að þessi þáttur hafi sérstaklega verið kannaður af jarðfræðingi áður en göngin voru gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×