Innlent

Sýrlenska flóttafólkið kemur ekki fyrr en í janúar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá flóttamannabúðum í Líbanon.
Frá flóttamannabúðum í Líbanon. vísir/getty
Sýrlensku flóttamennirnir sem koma áttu hingað til lands núna í desember munu ekki koma fyrr en um eða eftir miðjan janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Þar segir að ýmislegt hafi orðið þess valdandi að lengri tíma hefur tekið en ætlað var að ganga frá nauðsynlegum formsatriðum varðandi útgáfu útgönguvegabréfa fyrir flóttafólkið, sem áskilin eru af hálfu líbanskra yfirvalda við brottför fólksisn frá Líbanon.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að í dag hefst námskeið á vegum alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar fyrir flóttamennina. Markmið námskeiðsins er að undirbúa fólkið fyrir þær breytingar sem framundan eru og hvers þau mega vænta við búsetu í nýju landi.

Á námskeiðinu eru fólkinu veittar ýmsar almennar upplýsingar um að hefja líf í nýju landi en einnig sérstakar upplýsingar sem varða íslenskar aðstæður.

Flóttamennirnir eru 55 talsins, 20 fullorðnir og 35 börn. Af hópnum munu flestir setjast að á Akureyri, eða 23, 17 munu fara í Hafnarfjörð og 15 í Kópavog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×