Innlent

Segir þingmann í salnum undir áhrifum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum.“
„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum.“ vísir/vilhelm
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í kvöld að þingmaður í salnum væri undir áhrifum. Hart er tekist á um fjárlagafrumvarp næsta árs þessa stundina, en atkvæðagreiðsla stendur nú yfir.

„Menn ættu að hlusta sem ættu að hlusta í þessum sal. Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði hún í pontu. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, kvaddi sér hljóðs í kjölfarið. „Ha?“ sagði hann, en fleiri voru þau orð ekki, og gerði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, athugasemdir við fundarstjórn forsetans.

Ummælin lét Lilja Rafney falla er hún gerði grein fyrir atkvæði sínu um breytingartillögu um óbreytt útvarpsgjald. Flissið uppskar hún þegar hún sagði Ríkisútvarpið hafa verið sameiningartákn þjóðarinnar í gegnum árin.

„Ríkisútvarpið sem hefur fylgt okkur frá 1930 að það virðist meiningin hjá þessum stjórnarmeirihluta að brjóta niður innviði þess svo það verði hvorki svipur hjá sjón. Þess vegna leggjum við í stjórnarandstöðunni til að Ríkisútvarpið fái þessar 303 milljónir til þess að styrkja reksturinn. Og ef hæstv. menntamálaráðherra nær því ekki fram að halda óbreyttu útvarpsgjaldi þá blasa við uppsagnir og niðurskurður hjá þessari stofnun, sem er lýðræðisvettvangur, menningarlegur vettvangur, og það sem hefur sameinað þessa þjóð í gegnum árin,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×