Innlent

Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum lokað vegna veðurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stórhríð er nánast á öllu Suðurlandi og gríðarlega blint samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Stórhríð er nánast á öllu Suðurlandi og gríðarlega blint samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Vísir/Vilhelm
Búið er að loka þjóðvegunum um Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli. Stórhríð er nánast á öllu Suðurlandi og gríðarlega blint samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Ekkert verðaveður er í flestum landshlutum og varar Vegagerðin fólk við að vera á ferðinni. 

Suðurstrandarvegur er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en búið er að loka veginum á milli Hveragerðis og Selfoss.

Fyrr í dag var þjóðvegi 1 frá Markarfljóti aðBreiðamerkurlóni lokað. Einnig er búið að loka fyrir umferð á Öxnadalsheiði vegna ófærðar en þar sitja bílar fastir og bíða aðstoðar frá björgunarsveitum sem kallaðar hafa verið á vettvang.

Þjóðvegurinn við Hafnarfjall er einnig lokaður fyrir alla umferð vegna hvassviðris og hálku. 

Veðurstofan varar við stormi, meðalvindi yfir 20 metrum á sekúndu, á landinu í kvöld og mestallan morgundaginn.

Færð og aðstæður

Hálkublettir eru á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut en hálka er á Kjalarnesi. Illfært er á Krýsuvíkurvegi.

Fróðárheiði er ófær og þungfært er á norðanverðu Snæfellsnesi. Þungfært er einnig á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku

Á Vestfjörðum er hvassviðri og skafrenningur eða jafnvel stórhríð víðast hvar og slæm færð.

Vonskuveður er einnig á Norðurlandi með skafrenningi og snjókomu. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Ófært er bæði á Öxnadalsheiði og Víkurskarði.

Stórhríð er víða á Austurlandi og flestir vegir ófærir. Af fjallvegum er aðeins Fagridalur enn fær. Stórhríð er einnig með suðausturströndinni og slæm færð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×