Erlent

Vill frekar sjá bróður sinn í fangelsi en kirkjugarði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Salah Abdeslam er eftirlýstur, grunaður um að vera einn höfuðpaura hryðjuverkaárásanna í París.
Salah Abdeslam er eftirlýstur, grunaður um að vera einn höfuðpaura hryðjuverkaárásanna í París. vísir/getty
Mohamed Abdeslam, bróðir Salah Abdeslam sem nú er ákaft leitað í Belgíu, hvetur hann til að koma úr felum og gefa sig fram við lögreglu. Mohamed segist frekar vilja sjá bróður sinn í fangelsi en í kirkjugarði.

Í samtali við belgísku sjónvarpsstöðina RTBF sagðist Mohamed telja bróður sinn enn á lífi en Brahim, annar bróðir hans, sprengdi sig í loft upp í hryðjuverkaárásunum í París þann 13. nóvember síðastliðinn. Talið er að Salah sé einn af höfuðpaurum árásanna í París og að hann sé nú í felum í Belgíu, en greint er frá viðtalinu á BBC.

Að sögn Mohamed urðu breytingar á hegðun bræðra hans fyrir um hálfu ári en fjölskyldan sá þær ekki sem eitthvað hættulegt.

„Þegar bróðir þinn byrjar að biðja, þá er það ekki róttæk breyting. Þegar bróðir þinn segir þér að hann sé hættur að drekka þá er það heldur róttæk breyting. Í okkar huga vildu þeir bara fara að taka lífinu rólega og bera meiri virðingu fyrir trú sinni.“

Talið er að Salah búi yfir sprengjubelti og að hann hafi átt að sprengja sig í loft upp í París en hætt við það.

Lögmaður Mohamed segir að ef sú er raunin þá séu yfirvöld í Belgíu ekki aðeins á eftir Salah heldur einnig hryðjuverkasamtökin ISIS sem stóðu á bak við árásirnar í París.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×