Bílar

Pininfarina hannar traktor fyrir Zetor

Finnur Thorlacius skrifar
Traktor Zetor hannaður af Pininfarina.
Traktor Zetor hannaður af Pininfarina. Autoblog
Það er býsna löng hefð fyrir því að þekktir bílaframleiðendur og hönnunarhús teikni traktora fyrir framleiðendur þeirra og það hefur ítalska hönnunafyrirtækið Pininfarina gert fyrir tékkneska framleiðandann Zetor.

Hér hefur vel tekist til og þeir gerast vart flottari traktorarnir en þetta. Zetor fékk Pininfarina til að hanna þennan traktor í tilefni 70 ára afmælis síns og vildi með því koma með á markað fallega hannaðan traktor sem markað gæti framtíðarútlit þeirra á næstu árum.

Bæði Porsche og Lamborghini hafa hannað og framleitt flotta traktora í gegnum tíðina. Pininfarina hefur teiknað marga af fallegustu bílum heims fyrir marga bílaframleiðendur en þar sem margir þeirra hafa tekið hönnun sinna bíla til eigin höfuðstöðva hefur verkefnum Pininfarina fækkað og fyrirtækið stendur fremur illa fjárhagslega. Því er kannski ekki svo skrítið að fyrirtækið taki að sér verkefni eins og þetta til að halda lífi.

Önnur ítölsk hönnunarhús hafa einnig átt bágt á undaförnum árum og Bertone gott dæmi um það en fyrirtækið er nú gjaldþrota. Italdesign Giugiaro var bjargað af Volkswagen þar sem það keypti það upp og innlimaði í Volkswagen. Ferrari, sem átti í miklum viðskiptum við Pininfarina hefur að mestu tekið hönnun sinna bíla til sín í höfuðstöðvarnar í Marinello og fór þar stór spónn úr aski Pininfarina. 


Pininfarina hannar traktor fyrir Zetor






×