Sjö manns voru handteknir í áhlaupinu, einn féll fyrir byssuskotum og handsprengju frá lögreglunni og ein kona, sem var gyrt sprengjubelti, sprengdi sjálfa sig í loft upp. Hún er talin hafa verið frænka Abaaouds. Þá var þriðji maðurinn einnig sagður hafa fallið í áhlaupinu.
Abaaoud er talinn hafa verið höfuðpaurinn á bak við hryðjuverkin í París síðastliðið föstudagskvöld, sem kostuðu að minnsta kosti 129 manns lífið.
Ekki var þó ljóst í gær hvort Abaaoud var staddur í íbúðinni þegar árásin var gerð en franski saksóknarinn Francois Molins greindi frá því að hann hefði ekki verið meðal hinna handteknu. Molins sagði að þó ætti eftir að bera kennsl á lík þeirra sem létust í áhlaupinu og gæti Abaaoud verið á meðal þeirra.
Þrír hinna handteknu náðust inni í íbúðinni, tveir í næsta nágrenni og tvö að auki voru í felum í sprengjurústum. Meðal hinna handteknu er eigandi íbúðarinnar.
Reuters-fréttastofan fullyrti, og hafði eftir manni sem þekkir til rannsóknar lögreglunnar, að fólkið í íbúðinni hefði verið að skipuleggja ný hryðjuverk í viðskiptahverfinu La Défense í vestanverðri París.
Franska lögreglan hefur gert hundruð áhlaupa víðs vegar í Frakklandi í leit sinni að Abaaoud og félaga hans, Salah Abdeslam, sem tókst að komast undan eftir að hafa tekið þátt í árásunum í París á föstudag.
Mikill viðbúnaður er víða í löndum Evrópu vegna hryðjuverkahættu og yfirvöld eru fljót að bregðast við hættumerkjum.
Þá var Kastrupflugvöllur í Kaupmannahöfn rýmdur í gær eftir að heyrðist til tveggja manna ræða um að þeir væru með sprengjur í fórum sínum en í ljós kom að um dýrkeypt spaug var að ræða.
Í fyrrakvöld var einnig hætt við íþróttaleik í Hannover í Þýskalandi, þegar grunsamleg taska fannst í nágrenni leikvallarins. Vellinum var lokað meðan verið var að leita af sér allan grun.
