Fyrr í dag hafði saksóknarinn Francois Molins gefið út að ekki væri hægt að gefa út nöfn þeirra sem létust eða voru handteknir í áhlaupi lögreglunnar á íbúð í St. Denis hverfinu. Tvennt lét lífið og voru sjö handteknir. Í frétt BBC um málið er sagt að líkamsleifar hafi fundist í íbúðinni og er talið mögulegt að þar sé að finna sundurtætt lík Abaaoud.
Byggingin sem íbúðin er í er svo sundurskotin að talið er líklegt að hún geti hrunið. Því hafa rannsakendur farið hægt í að skoða hvernig er umhorfs í henni.
Francois Hollande sagði á blaðamannafundi í dag að Abdelhamid Abaaoud hafi ekki fundist í íbúðinni. Heimildum ber því ekki saman um afdrif Abaaoud. Nokkuð ljóst þykir að hvorki hann né Salah Abdelslim voru ekki meðal hinna handteknu.
Í kringum hundrað lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni og hleyptu af fjölda skota. Ekki varð mannfall í herbúðum lögreglunnar en fimm þeirra særðust.