Það sem gerir hinn rúmlega ársgamla Tsu nokkuð einstakt er að notendum samfélagsmiðilsins fá greitt fyrir að vera þar. 90 prósent þeirra auglýsingatekna sem fyrirtækið aflað verður dreift á notendur. Á einu ári urðu notendur Tsu rúm milljón sem þykir mikill og hraður vöxtur fyrir nýjan samfélagsmiðil.

Til þess að komast inn á Tsu þarf að setja inn notendanafn sem þegar er í notkun á samfélagsmiðlinum. Hins vegar skiptir það máli við tekjudreifingu Tsu hve stórt vinanet notenda er. Hve mikið hver notandi fær borgað byggir á fjölda vina og hve marga hver notandi hefur fengið til að skrá sig á Tsu og koll af kolli.
Þá skiptir einnig máli hve margar færslur hver notandi setur inn, sem þýðir aðeins eitt: Búið ykkur undir margar myndir af hvetjandi texta, líkamsræktarmyndum og upplýsingum um hvað köttur vinar þíns gerði í dag. Þar að auki er ekki útlit fyrir að gróði hvers og eins notenda sé mikill.
Þrátt fyrir að Tsu virðist hafa skotið forsvarsmönnum Facebook skelk í bringu, vakna spurningar um hvort að þessi smái samfélagsmiðill muni ekki þurfa að gefast upp á endanum. Enda hafa margir reynt að skáka Facebook og þar af tæknirisar á borð við Google. Hingað til hefur þó engum tekist að velta Facebook úr sessi.