Viðskipti erlent

Óvissa á olíumörkuðum vegna endurkomu Írana

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óvíst er hvaða áhrif endurkoma Íran á olíumarkaði mun hafa.
Óvíst er hvaða áhrif endurkoma Íran á olíumarkaði mun hafa. vísir/getty
Næsta ár gæti orðið forvitnilegt á olíumörkuðum heimsins þar sem létt verður mjög á viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna og annarra ríkja gagnvart Íran. Olía Írana er á leiðinni á markað innan skamms en nú þegar er offramboð af olíu. Bloomberg greinir frá.

Frá miðju ári 2012 hafa stjórnvöld í Íran hægt á olíuvinnslu sinni sökum viðskiptaþvingananna. Þau hafa gefið út að um leið og þvingununum verður létt verði allt sett á fullt á nýjan leik.

Bijan Namdar Zanganeh er olíumálaráðherra Íran.vísir/getty
Samkvæmt Alþjóða orkumálastofnuninni hafa verið framleiddar um 95,7 milljón tunnur af olíu að meðaltali í ár á degi hverjum en dagleg eyðsla nemur 93,8 milljón tunnum. Munurinn, 2 milljón tunnur, jafngildir daglegri olíunotkun Frakklands og hefur gert það að verkum að margir framleiðendur þurfa að safna birgðum.

Aukið framboð á íranskri olíu mun auka á offramboðið og hafa gífurleg áhrif í olíuríkjum á borð við Rússland, Sádi Arabíu og Venesúela. Talið er að þegar vinnsla Írana verður komin á fullt stím á nýjan leik snemma á næsta ári muni dagleg framleiðsla landsins nema um 3,6 milljón tunnum af hráolíu á dag. Það er aukning um tæpa milljón tunnur.

Offramboð á olíu á mörkuðum hefur þýtt að verðið hefur hríðfallið. Í upphafi árs kostaði tunnan í kringum áttatíu dollara en kostar nú undir fimmtíu dollurum. Verðið varð lægst í ágúst í ár þegar það fór undir fjörutíu dollara. Sé litið aftur til ársins 2011 kostaði tunnan ríflega 125 dollara svo munurinn er afar mikill.

Að auki er óvitað hve miklum birgðum Íran hefur náð að safna á meðan þvingununum stóð. Líklegt þykir að landið muni herja á markaði í Suður-Evrópu og í Frakklandi en Sádar og Rússar tóku við þeim í kjölfar viðskiptaþvingananna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×