Körfubolti

Hermann: Vona að Logi þurfi ekki að spila svona í vetur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson var stigahæsti leikmaður Njarðvíkur þegar liðið lagði Snæfell með ellefu stiga mun á sunnudagskvöldið í annarri umferð Dominos-deildarinnar.

Logi átti þó erfitt með skotin fyrir utan og hitti aðeins úr tveimur af fimmtán þriggja stiga tilraunum sínum. Hann er í öðruvísi hlutverki en áður vegna meiðsla Stefan Bonneau og þarf nú að stýra sóknarleik Njarðvíkur sem leikstjórnandi.

Sjá einnig:Körfuboltakvöld: Keflavík verður alltaf Keflavík

Það eru sérfræðingar Dominos-Körfuboltakvölds ekki ánægðir með, en þeim fannst Logi vera að reyna of erfiða hluti gegn Snæfelli og hreinlega vera í stöðu sem þreytir hann fyrr.

„Þetta er ekki leikurinn hans loga. Leikurinn hans Loga er að koma „af pikkum“ og taka skot. Hann er einn besti leikmaðurinn í að nýta sér hindranir liðsfélaga sinna. Þarna er hann að gera alltof mikið. Þetta dregur bara af honum,“ sagði Hermann Hauksson í gærkvöldi og Kristinn Friðriksson bætti við:

„Þó þetta sé opið skot er þetta ekki hans leikur. Hann er miklu betri að koma hraður „af pikki“ og annað hvort keyra inn að körfunni eða stökkva upp.“

Hermann hélt áfram: „Ég vona að þetta sé ekki sá leikur sem hann þarf að spila í vetur. Ég vona að það verði breyting á þessu hjá Njarðvík. Ég vil sjá Loga í allt öðruvísi stöðu þar sem hann nýtist betur,“ sagði hann og Kristinn fór svo langt að kenna slakri frammistöðu Njarðvíkurliðsins um þessa taktík.

„Þeir eru að lenda í vandræðum á móti Snæfellsliði sem var lélegt þegar á reyndi. Þeir lenda í basli út af þessu, held ég. Logi er að klappa boltanum full mikið þarna. Eru þeir ekki með kerfi? Hvað er að frétta?“ sagði Kristinn Friðriksson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×