Fótbolti

Markalaust hjá Chelsea í Úkraínu | Sjáið sláarskot Willian

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard í leiknum í kvöld.
Eden Hazard í leiknum í kvöld. Vísir/EPA
Chelsea er áfram í þriðja sæti G-riðils Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir markalaust jafntefli á móti Dynamo Kiev í kvöld. Dynamo Kiev er einu sæti og einu stigi ofar en Chelsea í töflunni þegar riðlakeppnin er hálfnuð.

Chelsea-liðið hefur aðeins fengið eitt stig út úr tveimur síðustu leikjum sínum og er ekki í alltof góðri stöðu.

Chelsea byrjaði leikinn miklu betur og fékk fullt af góðum sóknum til þess að komast yfir. Eden Hazard var aftur kominn í byrjunarliðið og hann átti meðal annars stangarskot á 9. mínútu.

Cesc Fàbregas vildi síðan fá vítaspyrnu á 18. mínútu þegar hann féll í teignum. Dómari dæmdi hinsvegar ekkert við litlar vinsældir hjá leikmönnum og knattspyrnustjóra Chelsea.

Willian og Nemanja Matić gerðu sig líka líklega til að skora en Matic fór mjög illa með gott færi á 21. mínútu.

Dynamo Kiev náði að lifa af pressu Chelsea á upphafsmínútunum og leikurinn jafnaðist. Vitaliy Buyalskiy var síðan nálægt því að skora fyrir úkraínska liðið á 27. mínútu en þrumuskot hans fór af John Terry og framhjá.

Willian var mjög nálægt því að ná forystunni á annarri mínútu seinni hálfleiks þegar aukaspyrna hans small í þverslánni.

Dynamo Kiev beitti skyndisóknum í seinni hálfleik og Chelsea náði aðeins að skapa sér hálfæri eða þar til í uppbótartíma þegar Willian var aftur nalægt því að skora.

Sláarskot Willian:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×