Knapinn Þorvaldur Árni Þorvaldsson, var þann 1. október síðastliðinn dæmdur í fjögurra ára keppnisbann. Amfetamín fannst í þvagsýni sem tekið var eftir keppni í tölti á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks í Víðidal í maí.
Er þetta í annað skiptið sem amfetamín finnst í þvagsýni Þorvalds eftir keppni en Vísir greindi fyrstur miðla frá málinu þann 24. júní síðastliðinn.
Lyfjaeftirlitið krafðist þess að Þorvaldur yrði úrskurðaður í átta ára bann en dómstóllinn komst að niðurstöðunni um að dæma hann í 4 ára bann.
Fékk eins mánaðs bann í fyrra
Þorvaldur var á sínum tíma úrskurðaður í þriggja mánaða keppnisbann eftir að amfetamín fannst í blóðsýni hans að lokinni töltkeppni í Meistaradeildinni í hestaíþróttum þann 6. mars 2014 en ákveðið var að milda dóminn og var hann aðeins í banni í einn mánuð.
Vakti ákvörðun ÍSÍ um að milda refsinguna niður í einn mánuð mikla athygli enda lauk banninu deginum áður en Landsmót hestamanna hófst.
Kemur fram í dóm ÍSÍ að Þorvaldur hafi reynt að komast undan því að fara í lyfjapróf en hann greindi frá því fyrir dómstólum að hann hefði neytt amfetamíns deginum áður er hann fór út að skemmta sér. Hann hafi glímt við áfengis- og vímuefnavanda um langan tíma.
Kemur fram í skýrslunni að Þorvaldur hafi dvalið á Vogi og sæki fundi vegna fíkniefnavandamála sinna.
Þorvaldur dæmdur í 4 ára bann
Kristinn Páll Teitsson skrifar
