Leiðtogar Evrópusambandsríkja ætla að hittast á fundi í Brussel í dag til þess að ræða flóttamannavandann í álfunni og verður Tyrkland í brennidepli á fundinum. Um 600 þúsund flóttamenn hafa komið til ESB það sem af er ári og fóru flestir þeirra í gegnum Tyrkland að því er fram kemur í frétt um málið hjá BBC.
Talið er að nú búi um tvær milljónir flóttamanna í Tyrklandi en flestir þeirra hafa á síðustu árum flúið átökin í nágrannaríkinu Sýrlandi. Á fundinum í dag vonast menn til þess að hægt verði að taka upp nánara samstarf í þessum málum við Tyrki, sem eru ekki í Evrópusambandinu.
