Körfubolti

Darrel Lewis þegar búinn að gera betur en í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Keith Lewis.
Darrel Keith Lewis. Vísir/Vilhelm
Darrel Keith Lewis skoraði 37 stig í sigri Tindastóls á ÍR í fyrstu umferð Domino´s-deildar karla í körfubolta í Seljaskólanum í gær en hann mun fagna fertugsafmæli sínu á þessu tímabili.

Darrel skoraði meðal annars fimm þriggja stiga körfur í leiknum sem er eitthvað sem hann náði aldrei í deildarkeppninni í fyrra.

Darrel Lewis skoraði nefnilega mest þrjár þriggja stiga körfur í einum leik í deildarkeppninni fyrir ári síðan og hann var þá „bara“ með samtals þrettán þrista í 22 deildarleikjum með Tindastólsliðinu.

Þrátt fyrir að vera aðeins búinn að spila einn leik er hann „aðeins“ átta þristum frá því að jafna uppskeru sína í 22 leikjum á síðustu leiktíð.

Lewis skoraði fjóra af fimm þristum sínum í fyrri hálfleiknum í leiknum í gær þegar hann nýtti 67 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna (4 af 6). Nýting í seinni hálfleik var reyndar bara 17 prósent (1 af 6) en það kom ekki að sök.

Það er spurning hvort að það verði sama þróun hjá honum og á síðasta tímabili en þá gerði Lewis einmitt flestar þriggja stiga körfur í fyrsta deildarleik tímabilsins.

Lewis skoraði líka meira í þessum leik á móti ÍR-ingum í gær (37) heldur en samanlagt í tveimur fyrstu deildarleikjunum á síðasta tímabili (33).

Darrel Lewis náði samt að skora fimm þrista í einum leik í úrslitakeppninni í fyrra þar sem hann skoraði 12 þriggja stiga körfur í 11 leikjum.


Tengdar fréttir

Sjáðu upphitunarþátt Körfuboltakvölds

Vísir býður lesendum sínum upp á að horfa á fyrsta þátt Dominos-Körfuboltakvölds sem var á dagskrá á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×