Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Þór Þ. 90-80 | Stórleikur Ragnars ekki nóg gegn KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Nathanaelsson sýndi stórleik í kvöld.
Ragnar Nathanaelsson sýndi stórleik í kvöld.
KR er komið á blað í Domino's-deild karla eftir sigur á Þór í kvöld. Gestirinir frá Þorlákshöfn voru þó með frumkvæðið framan af leik í kvöld en KR sýndi mátt sinn í fjórða leikhluta og innbyrtu sín fyrstu stig í vetur.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í DHL-höllinni í kvöld og tók þessar myndir hér fyrir ofan.

Ragnar Nathanaelsson sýndi að hann er án nokkurs vafa einn besti stóri maðurinn í deildinni með frammistöðu sinni í kvöld en í þrjá leikhluta fór hann fyrir spræku liði Þórs sem náði að valda Íslandsmeisturum KR verulegum vandræðum.

Michael Craion átti í stökustu vandræðum með Ragnar í allt kvöld og virtist um tíma sem að Þórsarar ætluðu að verða KR-ingum afar erfiðir. Ragnar skoraði 25 stig í kvöld og tók sautján fráköst, þar af tíu sóknarfráköst.

Ógnarsterk liðsheild KR náði að stíga upp í fjórða leikhluta og tók völdin í leiknum með 10-0 spretti í upphafi leikhlutans. Lykilmenn Þórs voru greinilega orðnir dauðþreyttir en héldu þó í við KR-inga fram á lokamínútur leiksins.

Þórsarar nýttu Ragnar, stóra manninn sinn, vel undir körfunni frá upphafi og skilaði hann ellefu stigum og sjö fráköstum strax í fyrsta leikhluta. Vance Hall og Ragnari Bragasyni tókst að skila nokkrum þristum til viðbótar og tóku Þórsarar völdin með því að komast á 13-0 sprett.

KR-ingar voru að sama skapi mistækir í sóknarleik sínum framan af en náðu að rétta úr kútnum með agaðri varnarleik. KR-ingum leið best þegar þeir stjórnuðu hraðanum en annars í smá vandræðum með svæðisvörn Þórsara. Það sást einna best á Því að Michael Craion fann sig illa í upphafi leiks og var stigalaus í fyrsta leikhluta.

Craion var ekki lengi að komast á blað í öðrum leikhluta og þá komst meira jafnvægi á sóknarleik KR-inga. Þórsarar hættu að sama skapi að hitta jafn vel og skoruðu aðeins eitt stig á fyrstu fimm mínútum leikhlutans.

KR virtist hafa náð að kippa Ragnari úr leiknum en bakverðir gestanna minntu þá rækilega á sig. Ragnar og Emil Karel Einarsson settu niður þrista með nokkurra sekúndna millibili og á augabragði náði Þór aftur undirtökunum í leiknum. Þórsarar héldu forystunni til loka fyrri hálfleiks en staðan að honum loknum var 44-42, gestunum í vil.

Ragnar gaf tóninn strax í upphafi síðari hálfleiks með því að stjórna baráttunni gegn Craion á báðum endum vallarins. Gestirnir héldu undirtökunum og það fór í taugarnar á KR-ingum, sem sást best á því að Brynjar Þór Björnsson fékk tæknivillu fyrir mótmæli.

KR var aldrei langt undan og kom inn í fjórða leikhluta af miklum krafti. Heimamenn fóru á mikið flug, bæði í vörn og sókn, og skoruðu fyrstu tíu stig leikhlutans. KR náði þar með átta stiga forystu og virtist ekki líklegt til að láta hana af hendi.

Þórsarar lentu í villuvandræðum og Bandaríkjamaðurinn Vance Michael Hall fékk sína fimmtu villu um miðjan fjórða leikhluta er hann fékk tæknivillu fyrir leikaraskap. KR-ingar gengu á lagið og Pavel Ermolinskij gerði nánast út um leikinn þegar hann kom sínum mönnum fjórtán stigum yfir, 81-67, með þrigga stiga körfu þegar rúmar fimm mínútur voru eftir.

Óhætt er að segja að Þórsarar hafi gefið Íslandsmeisturunum almennilegan leik í kvöld en á endanum skorti þá úthald til að halda sama krafti í sínum leik allt til loka og það nýttu klókir KR-ingar sér. Ragnar Nathanaelsson sendi þó skýr skilaboð með frammistöðu sinni í kvöld og ljóst að hann á eftir að valda mörgum liðum vandræðum í vetur.

KR-ingar þiggja sín fyrstu stig í vetur með þökkum en þeir eru sjálfsagt fyrst og fremst fegnir því að hafa ekki þurft að horfast í augu við að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Þeir stigu upp á hárréttum tíma í kvöld og sýndu í fjórða leikhluta af hverju liðið er til alls líklegt í vetur.

KR-Þór Þ. 90-80 (23-28, 19-16, 21-21, 27-15)

KR: Brynjar Þór Björnsson 24, Michael Craion 16/7 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 16/4 fráköst/7 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 10/6 fráköst/6 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 9/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 7/4 fráköst, Björn Kristjánsson 5, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 3.

Þór Þ.: Ragnar Ágúst Nathanaelsson 25/17 fráköst/4 varin skot, Ragnar Örn Bragason 14/5 fráköst, Vance Michael Hall 13/5 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 10/5 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 4, Halldór Garðar Hermannsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3.

Einar Árni: Besta frammistaða Ragnars

Einar Árni Jóhannsson var ánægður með margt sem hans menn í Þór sýndu í DHL-höllinni í kvöld þrátt fyrir tapið gegn KR.

„Þetta gekk að mörgu leyti vel hjá okkur. Við vorum ánægðir með frammistöðu okkar gegn Keflavík í síðasta leik þar sem okkur fannst að værum víðsfjarri okkar besta, sérstaklega í vörn. Við vildum sýna að við værum betri en það.“

„Þrátt fyrir tapið játa ég fúslega að ég er ánægður með mjög margt í mínu liði. Það voru sex mínútur í leiknum sem skilja í raun liðin að,“ sagði Einar Árni og átti við upphafskaflann í fjórða leikhluta þegar KR tók völdin í leiknum.

„Það er erfitt að að segja hvað fór úrskeðis. Það voru margir tapaðir boltar og við urðum pínulítið smeykir gegn mikilli pressu frá þeim. Það er eitthvað sem við getum lært af því við eigum ekki að þurfa að hræðast neitt.“

Hann segir að hans menn hafi verið orðnir þreyttir undir lokin. „Við erum nokkuð grunnir og elsti maðurinn er 25 ára gamall. En við eigum virkilega góðan kjarna og byrjunarliðið var mjög gott, þó svo að þeir voru þreyttir í restina.“

„Við hættum ekki og er ég ánægður með það. Þegar það voru sex mínútur eftir náðum við að koma okkur aftur inn í leikinn og það var gott.“

Ragnar Nathanaelsson átti stórleik í liði Þórs og Einar Árni var ánægður með hann.

„Ég sagði við hann eftir leikinn að þessi frammistaða hafi verið sú besta sem ég hef séð frá honum á Íslandi. Það er eitthvað til að byggja á. Þegar hann er einbeittur og eins kröftugur og hann var í kvöld þá er hann frábær.“

„Hann hefur verið í villuvandræðum í síðustu leikjum en hann var skynsamur í kvöld. Og ef við getum haldið honum inn á í 30 mínútur plús þá er hann virkilega öflugur.“

Ragnar: Þurfti að taka til í hausnum á mér

Ragnar Nathanaelsson átti stórleik með liði Þórs í kvöld en hann skoraði 25 stig gegn KR í kvöld og tók sautján fráköst, þar af tíu sóknarfráköst.

„Það er auðvitað svekkjandi að tapa en við erum á uppleið. Við spiluðum töluvert betur í kvöld en gegn Keflavík. Við spiluðum hörkuvörn gegn gríðarlega góðu KR-liði.“

„Við erum því ekkert allt of sárir. Auðvitað viljum við vinna alla leiki en þetta eru ríkjandi Íslandsmeistarar og við getum lært af þessum leik.“

Michael Craion hefur verið talinn besti stóri maður Domino's-deildarinnar síðastliðin ár en Ragnar hafði betur í baráttunni við hann í kvöld.

„Það var ekki planið að senda einhver skilaboð. Ég ætlaði bara að spila minn leik. Það var nú varla búið að minnast á mig í þessu tali en ég mætti bara og vildi aðallega sýna fyrir sjálfum mér að ég gæti spilað vel á móti öðrum stórum mönnum.“

Hann var ánægður með hversu agaðan leik hann sýndi í kvöld en Ragnar fékk aðeins þrjár villur í leiknum.

„Ég þurfti aldeilis að taka til í hausnum á mér eftir síðasta leik. Ég gerði það og kom tilbúinn í þennan leik. Ég var ósáttur við sjálfan mig eftir síðasta leik en er sáttur við mig í dag.“

Ragnar Nathanaelsson átti stórleik með liði Þórs í kvöld en hann skoraði 25 stig gegn KR í kvöld og tók sautján fráköst, þar af tíu sóknarfráköst.

„Það er auðvitað svekkjandi að tapa en við erum á upplið. Við spiluðum töluvert betur í kvöld en gegn Keflavík. Við spiluðum hörkuvörn gegn gríðarlega góðu KR-liði.“

„Við erum því ekkert allt of sárir. Auðvitað viljum við vinna alla leiki en þetta eru ríkjandi Íslandsmeistarar og við getum lært af þessum leik.“

Michael Craion hefur verið talinn besti stóri maður Domino's-deildarinnar síðastliðin ár en Ragnar hafði betur í baráttunni við hann í kvöld.

„Það var ekki planið að senda einhver skilaboð. Ég ætlaði bara að spila minn leik. Það var nú varla búið að minnast á mig í þessu tali en ég mætti bara og vildi aðallega sýna fyrir sjálfum mér að ég gæti spilað vel á móti öðrum stórum mönnum.“

Hann var ánægður með hversu agaðan leik hann sýndi í kvöld en Ragnar fékk aðeins þrjár villur í leiknum.

„Ég þurfti aldeilis að taka til í hausnum á mér eftir síðasta leik. Ég gerði það og kom tilbúinn í þennan leik. Ég var ósáttur við sjálfan mig eftir síðasta leik en er sáttur við mig í dag.“

Brynjar: Craion ekki í sínu besta formi

Brynjar Þór Björnsson segir að Michael Craion hafi fengið áminningu frá Ragnari Nathanaelssyni í kvöld, er KR vann sigur á Þór, 90-80

„Þórsarar hafa spilað vel í haust og þeir komu okkur ekki á óvart. Raggi Nat var stórkostlegur í kvöld - hann hljóp völinn fram og til baka í 35 mínútur og það sást varla á honum,“ sagði Brynjar Þór eftir leikinn í kvöld.

„Það var erfitt að eiga við hann. Við réðum ekkert við hann. Ragnar var að klára vel og var óvenjulega mjúkur. Mýrki en ég hef séð hann áður,“ sagði Brynjar og brosti.

Brynjar segir að leikurinn í kvöld hafi verið áminning fyrir Michael Craion sem átti í miklu basli með Ragnar.

„Klárlega. Hann er ekki í sínu besta formi og það sýndi sig í dag. Hann er skrefi eða tveimur hægari en hann var í úrslitakeppninni í fyrra og það munar miklu um það.“

Brynjar segir að Þórsarar hafi farið að þreytast undir lok leiksins, þegar KR-ingar tóku völdin í leiknum.

„Þeir spiluðu hátt tempó á okkur og hittu vel. En þeir urðu þreyttir og þrátt fyrir allt fannst mér þetta þokkalega spilað hjá okkur, þegar maður lítur á heildina. Þetta er klárlega skref fram á við miðað við síðasta leik.“

KR tapaði fyrir Stjörnunni í fyrstu umferð og Brynjar viðurkennir að honum hafi flogið til hugar að mögulega kæmi annað tap í kvöld.

„En það var enn mikið eftir - 15 mínútur - og það er nóg til að vinna körfuboltaleik.“

Finnur: Ragnar tók Mike úr leiknum

„Ég er ánægður með sigurinn. Þórsarar spiluðu hörkuleik gegn okkur og hver maður sá að þeir ætluðu sér að vinna leikinn. Fyrsti leikhlutinn hjá þeim var frábær,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir sigur sinna manna á Þór frá Þorlákshöfn í kvöld.

„Við reyndum að gera okkar besta en það var ekki fyrr en við náðum að herða vörnina okkar að þetta fór að ganga þokkalega.“

Ragnar Nathanaelsson átti stórleik fyrir Þór og Finnur segir að hans menn hafi átt í erfiðleikum með miðherjann stóra.

„Hann tók Mike [Craion] algjörlega úr leiknum. Það var ekki fyrr en í lokin þegar við fengum smá „cojones“ eins og Fannar [Ólafsson] segir að við fórum að ráðast á hann og fórum þá að skora.“

„Ragnar er flottur leikmaður og það verður virkilega gaman að fylgjast með honum í vetur.“

Finnur segir eins og hann hefur gert áður - að KR eigi langt í land og að hans menn þurfi að bæta sig með hverjum leiknum. „Þegar við leggjum okkur fram í vörninni og boltinn gengur hratt á milli manna kemur í ljós hvað við getum. Það býr mikið í liðinu en við þurfum að láta það gerast og leggja okkur 100 prósent fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×