Körfubolti

Brynjar: Craion ekki í sínu besta formi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson var langatkvæðamestur í KR-liðinu.
Brynjar Þór Björnsson var langatkvæðamestur í KR-liðinu. Vísir/Valli
Brynjar Þór Björnsson segir að Michael Craion hafi fengið áminningu frá Ragnari Nathanaelssyni í kvöld, er KR vann sigur á Þór, 90-80, í annarri umferð Domino's-deildar karla í kvöld.

Ragnar skoraði 25 stig og tók sautján fráköst í leiknum. Hann fékk aðeins þrjár villur þrátt fyrir mikla baráttu við Craion undir körfunni á báðum endum vallarins.

„Þórsarar hafa spilað vel í haust og þeir komu okkur ekki á óvart. Raggi Nat var stórkostlegur í kvöld - hann hljóp völinn fram og til baka í 35 mínútur og það sást varla á honum,“ sagði Brynjar Þór eftir leikinn í kvöld.

„Það var erfitt að eiga við hann. Við réðum ekkert við hann. Ragnar var að klára vel og var óvenjulega mjúkur. Mýkri en ég hef séð hann áður,“ sagði Brynjar og brosti.

Brynjar segir að leikurinn í kvöld hafi verið áminning fyrir Michael Craion sem átti í miklu basli með Ragnar.

„Klárlega. Hann er ekki í sínu besta formi og það sýndi sig í dag. Hann er skrefi eða tveimur hægari en hann var í úrslitakeppninni í fyrra og það munar miklu um það.“

Brynjar segir að Þórsarar hafi farið að þreytast undir lok leiksins, þegar KR-ingar tóku völdin í leiknum.

„Þeir spiluðu hátt tempó á okkur og hittu vel. En þeir urðu þreyttir og þrátt fyrir allt fannst mér þetta þokkalega spilað hjá okkur, þegar maður lítur á heildina. Þetta er klárlega skref fram á við miðað við síðasta leik.“

KR tapaði fyrir Stjörnunni í fyrstu umferð og Brynjar viðurkennir að honum hafi flogið til hugar að mögulega kæmi annað tap í kvöld.

„En það var enn mikið eftir - 15 mínútur - og það er nóg til að vinna körfuboltaleik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×