Körfubolti

Þór Þorlákshöfn í úrslit Lengjubikarsins í fyrsta sinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þór Þorlákshöfn leikur til úrslita í Lengjubikarnum á morgun.
Þór Þorlákshöfn leikur til úrslita í Lengjubikarnum á morgun. Vísir/Valli
Þór Þorlákshöfn komst í úrslit Lengjubikarsins í körfuknattleik í kvöld eftir dramatískan 83-82 sigur á Haukum. Leikmenn Hauka fengu tækifæri til þess að stela sigrinum þegar ein sekúnda var eftir á klukkunni en skotið klikkaði.

Stjarnan tryggði sér sæti í úrslitunum fyrr í kvöld með tíu stiga sigri á FSu en báðir leikir kvöldsins fóru fram á Selfossi þar sem úrslitaleikurinn fer fram á morgun.

Þór byrjaði leikinn betur og leiddi 26-22 að fyrsta leikhluta loknum. Tókst leikmönnum liðsins að bæta við forskotið í öðrum leikhluta og leiddu leikmenn Þórs í hálfleik 48-42.

Gestirnir úr Hafnarfirði voru hinsvegar ekkert á því að gefast upp og unnu sig aftur inn í leikinn í þriðja leikhluta sem þeir unnu 26-22 og var staðan 70-68 að loknum þriðja leikhluta.

Haukar náðu forskotinu um miðbik fjórða leikhluta en það virtist vekja leikmenn Þórs aftur til lífsins því þeir tóku aftur við sér og náðu forskotinu strax aftur. Liðin skiptust á körfum á lokamínútunum en Þór var með eins stiga forskot þegar hálf mínúta var eftir.

Fengu þeir fjöldan allra tækifæra til að gera út um leikinn, meðal annars eftir tvö sóknarfráköst en þeim tókst ekki að koma boltanum í körfuna og fengu leikmenn Hauka eitt tækifæri til þess að stela sigrinum með aðeins eina sekúndu á klukkunni.

Stillt var upp í leikkerfi og fékk Kári Jónsson tækifæri til að stela sigrinum en skot hans geigaði og verður það því Þór Þorlákshöfn sem mætir Stjörnunni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×