Viðskipti erlent

Hlutfall sárafátækra í fyrsta sinn innan við tíu prósent

Bjarki Ármannsson skrifar
Fátæk börn á götum Manila, höfuðborgar Filippseyja.
Fátæk börn á götum Manila, höfuðborgar Filippseyja. Vísir/AFP
Hlutfall heimsbyggðarinnar sem býr við sárafátækt mun á árinu fara niður fyrir tíu prósent í fyrsta sinn í sögunni. Þetta segir Alþjóðabankinn, stofnun sem stuðlar að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda.

„Þetta er besta fréttin í heiminum akkúrat núna,“ hefur fréttastofa CNN eftir Jim Yong Kim, forseta Alþjóðabankans. „Spár okkar sýna að við erum fyrsta kynslóðin frá upphafi sem getur bundið enda á sárafátækt í heiminum.“

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðabankans búa þeir við sárafátækt sem lifa á innan við 240 íslenskum krónum á dag. Bankinn spáir því að árið 2015 muni hlutfall þeirra sem búa við sárafátækt hafa fallið niður í um 9,6 prósent heimsbyggðarinnar, sem gerir um 702 milljónir manna.

Til samanburðar má nefna að árið 2012 bjuggu 902 milljónir manna við sárafátækt, um 12,8 prósent heimsbyggðarinnar á þeim tíma.

Í nýrri skýrslu stofnunarinnar segir að fjárfesting í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarþjónustu þróunarlanda sé að skila sér í lægra hlutfalli fátækra. Þó mikið verk sé enn óunnið, þá sérstaklega í suðurhluta Afríku þar sem um helmingur fátækra býr, sé heimurinn að færast nær því háleita markmiði Sameinuðu þjóðanna að útrýma sárafátækt fyrir árið 2030.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×