Körfubolti

Eric “Eazy” Wise með Grindavík í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Wise.
Eric Wise. Vísir/Getty
Grindvíkingar hafa fundið nýjan bandarískan leikmann fyrir tímabilið í Dominos-deild karla í körfubolta en karfan.is sagði fyrst frá því að Grindavík hafi samið við Eric Wise.

Eric Wise leysir af Hector Harold sem fékk aðeins að spila með Grindavíkurliðinu á undirbúningstímabilinu. Þetta var annað árið í röð sem Grindavík skiptir um bandarískan leikmann áður en Dominos-deildin fer af stað en Brendon Roberson var látinn fara á sama tíma í fyrra.

Eric Wise er 25 ára gamall, 198 sentímetrar á hæð og var 108 kíló á þyngd á háskólaárunum sínum. Hann hefur spilað á Filippseyjum, í Ísrael og í Belgíu síðan að hann kláraði háskólaferil sinn árið 2013.

Eric Wise lék síðast með Spirou Charleroi í Belgíu þar sem hann var með 6,6 stig og 4,1 frákast að meðaltali á 20,3 mínútum í leik.  

Faðir hans, Francois Wise, var farsæll körfuboltamaður, sérstaklega á Filippseyjum þar sem hann var goðsögn, kallaður The Hulk, og skoraði 36,7 stig og tók 15,0 fráköst að meðaltali í leik.

Sonur hans fékk ekki The Hulk nafnið heldur er hann kallaður Eazy. Hann lítur á sjálfan sig sem lítinn framherja en getur hiklaust skilað stöðu kraftframherja í íslensku deildinni.  Eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan þá er þetta stór og mikill strákur sem hefur góðar hreyfingar undir körfunni.

Hann lék í þrjú ár með háskólaliði UC Irvine en skipti síðan yfir í University of Southern California þar sem hann var með 11,9 stig og 5,7 fráköst að meðaltali á síðasta ári sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×