Fótbolti

Casillas leikjahæstur í sögu Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Casillas fagnar sigrinum á Chelsea í gær.
Casillas fagnar sigrinum á Chelsea í gær. vísir/getty
Iker Casillas fór í gær fram úr Xavi Hernández á listanum yfir leikjahæstu leikmenn Meistaradeildar Evrópu frá upphafi.

Casillas stóð í marki Porto sem vann 2-1 sigur á Chelsea á Estádio do Dragão í G-riðli Meistaradeildarinnar í gær en þetta var hans 152. leikur í keppninni.

Hann og Xavi, sem voru lengi samherjar í spænska landsliðinu, voru jafnir fyrir leik gærdagsins með 151 Meistaradeildarleik hvor en Casillas trónir nú á toppi leikjalistans.

Casillas lék 150 leiki í Meistaradeildinni fyrir Real Madrid á árunum 1999-2015. Hann var fyrst í hóp í Meistaradeildinni þegar Real Madrid mætti Rosenborg 27. nóvember 1997, þá aðeins 16 ára.

Casillas lék hins vegar fyrsta Meistaradeildarleikinn þegar Real Madrid og Olympiacos gerðu 3-3 jafntefli 15. september 1999.

Hann vann Meistaradeildina í þrígang með Real Madrid; 2000, 2002 og 2014. Casillas er yngsti markvörðurinn sem hefur spilað í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en hann stóð í marki Real Madrid liðið vann Valencia 3-0 í úrslitaleiknum 2000.

Casillas í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Valencia árið 2000.vísir/getty
Ólíklegt verður að teljast að leikjamet Casillas verði slegið á næstunni en næstu sjö menn á topp 10 listanum eru annað hvort hættir eða spila ekki lengur með evrópskum liðum.

Cristiano Ronaldo er sá eini á leikjalistanum, fyrir utan Casillas, sem er enn að spila en Portúgalinn leikur væntanlega sinn 117. leik í Meistaradeildinni þegar Real Madrid mætir Malmö í kvöld.

Leikjahæstir í sögu Meistaradeildarinnar:

1. Iker Casillas (Real Madrid, Porto) - 152 leikir

2. Xavi (Barcelona) - 151

3. Ryan Giggs (Manchester United) - 145

4. Raúl (Real Madrid, Schalke 04) - 142

5. Paolo Maldini (AC Milan) - 135

6. Clarence Seedorf (Ajax, Real Madrid, Internazionale, AC Milan) - 125

7. Paul Scholes (Manchester United) - 124

8. Roberto Carlos (Real Madrid, Fenerbahce) - 120

9. Cristiano Ronaldo (Manchester United, Real Madrid) - 116

10. Carles Puyol (Barcelona) - 115




Fleiri fréttir

Sjá meira


×