Erlent

Leiðtogi herforingja í Burkina Faso kveðst tilbúinn að afsala sér völdum

Bjarki Ármannsson skrifar
Maður úr hópi mótmælenda gefst upp fyrir liðsmönnum lífvarðasveitarinnar.
Maður úr hópi mótmælenda gefst upp fyrir liðsmönnum lífvarðasveitarinnar. Vísir/AFP
Leiðtogi herforingjastjórnarinnar sem tók völdin í Burkina Faso í síðustu viku hefur beðið þjóðina afsökunar á mannfalli vegna valdaránsins. Hann segist reiðubúinn að afsala sér völdum til bráðabirgðastjórnar, nú þegar her landsins nálgast höfuðborgina til að binda enda á valdatíð hans. 

Gilbert Diendere hershöfðingi fer fyrir hópi hershöfðingja úr lífvarðasveit forsetans sem tók völdin í landinu á miðvikudaginn. Hópurinn fangelsaði einnig forseta og forsætisráðherra landsins, en forsetanum hefur verið sleppt. Jafnframt segist Diendere vera reiðubúinn að sleppa forsætisráðherranum úr haldi.

Lífvarðasveit forsetans er ekki hluti af her Burkina Faso, sem er nú á leið til höfuðborgarinnar með það fyrir stefnu að koma lífvarðasveitinni frá völdum án blóðsúthellinga.

Diendere sagðist í yfirlýsingu í kvöld vera reiðubúinn að afsala sér völdum en varaði við því að borgarastyrjöld gæti brotist út í kjölfarið. Hann bað þjóðinna og alþjóðasamfélagið afsökunar á mannfalli í landinu, en tíu hið minnsta hafa fallið í valdaráninu og rúmlega hundrað særst. Ekki er vitað hvar Diendere heldur til.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá hafa hundruð manna komið saman á götum höfuðborgarinnar Ouagadougou til að fagna komu hersins. Þó sé ástandið í landinu enn mjög ruglingslegt og alls ekki útilokað að átök muni brjótast út á ný.

Tengdar fréttir

Búrkína Fasó vísað úr Afríkuráðinu

Herforingjar framkvæmdu valdarán í Búrkína Fasó á miðvikudaginn síðastliðinn. Herforingjastjórnin segist tilbúin til viðræðna til að sætta deiluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×