Viðskipti erlent

Telja mikinn efnahagslegan ávinning af flóttamönnum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Framleiðslugeta evrusvæðisins gæti aukist verulega með innflæði flóttamanna.
Framleiðslugeta evrusvæðisins gæti aukist verulega með innflæði flóttamanna. Vísir/NordicPhotos/AFP
Credit Suisse segir flóttamenn mjög góða til lengri og styttri tíma fyrir hagkerfi evrusvæðisins. Á mánudaginn sögðu þau Christel Aranda-Hassel, Peter Foley, og Sonali Punhani hjá Credit Suisse í skýrslu að innflæði flóttamanna og innflytjenda væri jákvætt fyrir hagspá Evrópu til lengri og styttri tíma litið.

Í skýrslunni segir að til skamms tíma muni innflæðið ýta undir hagvöxt. Kostnaður af húsnæði, mat og öðrum nauðsynjum sem stjórnvöld munu standa undir hafa margfeldisáhrif á hagkerfið. Þessi útgjöld gætu leitt til 0,2-0,3% hagvaxtaraukningu innan evrusvæðisins á næsta ári. „Allur peningur sem fer í nauðsynjar mun líklega finna leið aftur inn í hagkerfið,“ segir í skýrslunni.

Stærri viðbót er hins vegar langtíma áhrifin á vinnumarkaði. Íbúar Evrópu eru að eldast, sér í lagi í Þýskalandi og á Ítalíu, ellilífeyrisþegum fer því fjölgandi. Þar sem skatttekjur vinnandi fólks greiða að hluta til ellilífeyrinn mun aukning af ungu fólki á vinnumarkaðsaldri hafa jákvæð áhrif. Þrír fjórðu innflytjenda eru á vinnumarkðsaldri og gætu því haft töluverð áhrif. Samkvæmt útreikningum Credit Suisse gæti aukningin í fjöldanum á vinnumarkaði tvöfaldað framlag vinnuafls til vaxtar framleiðslugetu úr 0,2% í 0,4% árlega frá 2015 til 2023. Með því gæti framleiðslugeta aukist úr 1,1% aukningu á ári í 1,3% aukningu.

Frétt Business Insider um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×