Erlent

Samþykktu aukafjárveitingu upp á einn milljarð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Flóttafólk í Króatíu.
Flóttafólk í Króatíu. vísir/epa
Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í kvöld aukafjárveitingu til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna upp á einn milljarð evra. Fjármununum verður varið í mat og skjól fyrir flóttamenn í álfunni. Þá verða jafnframt settar upp móttökumiðstöðvar fyrir flóttafólk. 

Flóttamannavandinn var ræddur á leiðtogafundi ESB í Brussel í kvöld. Jean Claude Juncker, framkvæmdastjóri sambandsins, sagði fundinn hafa gengið prýðilega og að andrúmsloftið hafi verið léttara nú en áður.  

Tekin var ákvörðun á fundi innanríkisráðherra aðildarríkjanna í gær að tekið verði við 120 þúsund flóttamönnum, til viðbótar við þá fjörutíu þúsund sem áður hafði verið samið um.

Aðildarríkjum hefur þó gengið erfiðlega að koma sér saman um flóttamannakvóta, þar sem hvert ríki tæki við ákveðnum fjölda flóttamanna í samræmi við fólksfjölda og efnahagsástand viðtökulands. Harðasta andstaðan kemur frá Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Rúmeníu, en þessi ríki stóðu ekki að samkomulaginu sem náðist á fundi ráðherranna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×