Lífið

RIFF sett í tólfta sinn í kvöld

Stefán Árni Pálsson skrifar
Að athöfninni lokinni mun opnunarmynd hátíðarinnar verða sýnd, hin stórkostlega ævintýramynd, Tale of Tales, eða Sagnasveigur í leikstjórn Matteo Garrone.
Að athöfninni lokinni mun opnunarmynd hátíðarinnar verða sýnd, hin stórkostlega ævintýramynd, Tale of Tales, eða Sagnasveigur í leikstjórn Matteo Garrone. vísir
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verður sett í 12. sinn í kvöld við hátíðlega athöfn í Gamla Bíói en dagskráin hefst klukkan hálf átta.

Til að byrja með verður u.þ.b. 30 mínútna dagskrá þar sem Hrönn Marinósdóttir, stofnandi og hátíðarstjórnandi, segir nokkur orð, Margrét Örnólfsdóttir, handritshöfundur, mun flytja hina árlegu RIFF-Gusu. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun svo setja hátíðina formlega. Kynnir á opnunarhátíðinni er Snjólaug Lúðvíksdóttir, grínisti.

Að athöfninni lokinni mun opnunarmynd hátíðarinnar verða sýnd, hin stórkostlega ævintýramynd, Tale of Tales, eða Sagnasveigur í leikstjórn Matteo Garrone.

Myndin fléttar saman þremur óvenjulegum ævintýrum. Í einu þeirra leikur Salma Hayek drottningu sem fórnar lífi eiginmanns síns sem leikinn er af John C. Reilly. Í öðru leikur Vincent Cassel konung sem er heillaður af tveimur leyndardómsfullum systrum. Ævintýrin eru öll stórbrotið sjónarspil þar sem myndlíkingar leika stórt hlutverk. Sagnasveigur keppti um Gullpálmann í Cannes núna í vor auk þess hefur hún hlotið glæsilega dóma þar sem hún hefur verið sýnd.

Sérstök áhersla á hátíðinni í ár er á kvikmyndir eftir konur, um konur og málefni kvenna, í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi.  Hátíðin stendur í 11 daga til 4. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.