Erlent

Króatar opnað landamærin að Serbíu

Flóttafólk í Króatíu.
Flóttafólk í Króatíu. vísir/epa
Króatar hafa opnað landamæri sín að Serbíu að nýju og er nú öll umferð yfir landamærin heimiluð. Þeir segjast þó tilbúnir til að loka þeim aftur, sjái þeir tilefni til.

Stjórnvöld í Zagreb ákváðu í síðustu viku að loka landamærunum, vegna mikils fjölda flóttamanna sem þangað leita frá Serbíu. Kröfðust stjórnvöld þess að flóttamenn yrðu ekki einvörðungu sendir til Króatíu og lögðu til að þeir yrðu jafnframt sendir til Ungverjalands og Rúmeníu, og meinuðu í kjölfarið öllum serbneskum flutningabílum að aka yfir landamærin.

Serbar brugðust ókvæða við og ákváðu í gær að banna allan innflutning frá Króatíu til landsins. Króatar gengu þá skrefinu lengra og bönnuðu öllum bílum með serbnesk bílnúmer að aka yfir landamærin.

Serbar leituðu til Evrópusambandsins, sem í morgun krafði Króata skýringa á málinu. Skömmu síðar tilkynnti Zoran Milanovic að landamærin yrðu opnuð á ný.

Alls hafa sextíu þúsund flóttamenn leitað til Króatíu í þessari viku. Illa gengur að ráða við þennan mikla straum flóttafólks, en króatísk yfirvöld segja að flóttamenn verði að að sækja um hæli í landinu, ella verði þeir flokkaðir sem ólöglegir innflytjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×