„Landamæraeftirlitið er sárnauðsynlegt fyrir Þýskaland svo hægt sé að takmarka flæði flóttafólks inn til Þýskalands og koma skipulagi á móttöku þess,“ sagði Thomas de Maizière innanríkisráðherra þegar hann tilkynnti um aðgerðirnar í gær.
Þýskaland er hluti af Schengen og samkvæmt reglum samstarfsins mega ríki innan þess ekki takmarka för fólks innan svæðisins. De Maizière bendir hins vegar á heimild til að herða landamæraeftirlit af þjóðaröryggisástæðum.
„Maður sér að Þjóðverjar eru að fara af miklum þunga fram á endursamning á öllu kerfinu. Þeir eru farnir að tala mjög harkalega í garð þeirra ríkja sem neita að taka þátt í því að koma upp kvótafyrirkomulagi,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.

„Ég held að íslensk stjórnvöld þurfi að ákveða hvorum megin hryggjar þau verði,“ segir Eiríkur.