Fótbolti

Guðbjörg: Jákvætt að það sé pressa á liðinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Stemmingin er ótrúlega fín, það er langt síðan við hittumst og það er gott að fá æfingarleik áður en keppnin byrjar,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður Lilleström og íslenska landsliðsins, eftir æfingu í gær.

„Ég held að það séu allir bara spenntir fyrir verkefninu sem er framundan. Við eigum góðar minningar frá EM og það vilja allir upplifa það aftur.“

Guðbjörg sagði að það væri alltaf jafn gaman að koma og hitta landsliðsfélagana.

„Það er gaman að vera komnar saman aftur, það er komið hálft ár síðan við hittumst og það er hálfs árs birgðir af sögum sem þarf að segja. Það er gott að við fengum meiri tíma en oft áður til að hrista hópinn aðeins saman.“

Guðbjörg segir að það hjálpi liðinu að fá nokkrar æfingar og æfingarleik áður en alvaran hefst á þriðjudaginn.

„Í síðustu undankeppni hittumst við þremur dögum fyrir leikinn gegn Sviss sem tapaðist og við vorum ekki nægilega vel undirbúnar. Við þurfum að vinna í varnar- og sóknarleiknum, það þarf tíma í að samstilla liðið.“

Guðbjörg sagði að pressan sem væri á liðinu myndi drífa þær áfram.

„Það er jákvætt að það sé pressa á liðinu. Við höfum búið til þessa hugmynd að við séum góðar og við eigum að geta staðið undir þessari pressu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×