Erlent

Mannfall í mótmælum í Búrkína Fasó

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir lífvarðasveitarinnar standa vörð við forsetahöll Búrkína Fasó.
Meðlimir lífvarðasveitarinnar standa vörð við forsetahöll Búrkína Fasó. Vísir/AFP
Foringjar lífvarðarsveitar forsetans í Búrkína Fasó tóku völdin þar í landi í nótt. Hermennirnir hafa tekið yfir Ouagadougou, höfuðborg landsins og ráku starfandi ríkisstjórn og forseta frá völdum. Þeirri ríkisstjórn var ætlað að koma á kosningum eftir að Blaise Compaore, sem hafði verið forseti í 27 ár, sagði af sér í fyrra vegna umfangsmikilla mótmæla.

Hershöfðinginn Gilbert Diendere er sagður vera leiðtogi uppreisnarráðsins og segjast þeir ætla að halda friðsamar kosningar. Hann var náinn samstarfsmaður Compaore. Leiðtogi þingsins, Cheriff Sy, tilkynnti þó í dag að hann væri leiðtogi landsins og kallaði eftir því að íbúar myndu „rísa upp“ gegn valdaræningjunum.

Þá hafa fregnir borist af því að meðlimir lífvarðarsveitarinnar hafi skotið á mótmælendur á götum Ouagadougou, höfuðborgar landsins. Minnst tíu eru sagðir látnir.

Leiðtogar valdaránsins hafa sett á útgöngubann í nótt og lokað landamærum ríkisins, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Um leið og valdaránið var tilkynnt hófust mótmæli við forsetahöllina í Búrkína Fasó. Þar eru stjórnmálaleiðtogar landsins í haldi lífvarðarsveitarinnar.

Bandaríkin, Afríkubandalagið og Frakkland hafa fordæmt valdaránið, en Búrkína Fasó var frönsk nýlenda allt til 1960 og er eitt fátækasta ríki heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×