Íslenski boltinn

Fanndís: Vantaði bara bikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís fagnar markinu sem tryggði Breiðabliki Íslandsmeistaratitilinn.
Fanndís fagnar markinu sem tryggði Breiðabliki Íslandsmeistaratitilinn. vísir/auðunn níelsson
Fanndís Friðriksdóttir var hetja Breiðabliks þegar liðið tryggði sér sinn 16. Íslandsmeistaratitil með 1-2 sigri á Þór/KA fyrir norðan í dag.

„Það er brjáluð stemmning hérna,“ sagði Fanndís glöð þegar blaðamaður Vísi heyrði í henni hljóðið fyrir skemmstu. Blikar eru á heimleið frá Akureyri og það var greinilega mikið stuð í rútunni.

„Þetta er gríðarlega sætt, það vantaði bara bikarinn,“ bætti Fanndís við en Blikar fá Íslandsbikarinn afhentan á Kópavogsvelli á laugardaginn eftir leikinn við ÍBV í lokaumferðinni.

Blikakonur spiluðu ekki vel í fyrri hálfleik gegn Þór/KA í dag og voru 1-0 undir að honum loknum. Fanndís sagði að Blikar hefðu verið staðráðnir í að snúa dæminu sér í vil og klára titilinn fyrir norðan.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög lélegur en við spjölluðum saman í hálfleik og vorum ákveðnar í að klára þetta.

„Svo var þetta aldrei spurning í seinni hálfleiknum,“ sagði Fanndís sem skoraði sigurmark Blika á 62. mínútu með skoti úr vítateignum eftir fyrirgjöf Svövu Rósar Guðmundsdóttur. Þetta var 19. mark Fanndísar í sumar í en hún er langmarkahæst í Pepsi-deild kvenna og á Gullskóinn vísan.

Tíu ár eru liðin síðan Blikar urðu síðast Íslandsmeistarar en Fanndís er sú eina sem er eftir úr meistaraliðinu frá 2005.

„Þetta er búin að vera löng bið og loksins kom þetta,“ sagði Fanndís að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×