Erlent

Þrjú sýrlensk flóttabörn hurfu af spítala

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri flóttamenn farið yfir landamæri Evrópu og í síðasta mánuði.
Aldrei hafa fleiri flóttamenn farið yfir landamæri Evrópu og í síðasta mánuði. Vísir/EPA
Lögreglan í Austurríki segir þrjú sýrlensk flóttabörn og fjölskyldur þeirra hafi horfið af spítala eftir að þeim var bjargað úr sendibifreið sem í voru tuttugu og sex flóttamenn.

Börnin voru flutt á sjúkrahús í bænum Braunau am Inn á föstudag með alvarlegan vökvaskort. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Austurríki var sendibifreiðin stöðvuð í Braunau sem stendur við landamæri Þýskalands og var rúmenskur bílstjóri bílsins handtekinn.

Börnin sem um ræðir, tvær stúlkur og drengur, voru í skotti bílsins og voru alvarlega veik og nærri meðvitundarlaus þegar þau fundust.

BBC greinir frá því að í gær hafi þau á einhverjum tímapunkti horfið af spítalanum í Braunau. Yfirvöld halda að fjölskyldurnar hafi ákveðið að freista þess að komast yfir landamærin til Þýskalands frekar en að verða vísað úr landi og flutt til Ungverjalands.

Þessi saga er ein af fjölmörgum flóttamönnum en í síðasta mánuði fóru 107 þúsund flóttamenn yfir landamæri Evrópu sem er met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×