Ræsingin í dag var algjörlega í höndum ökumanna í fyrsta skipti mörg ár. Öll aðstoð af þjónustusvæðinu var bönnuð. Nico Hulkenberg veifaði höndum og komst ekki af stað.
Sergio Perez tók forystu á fyrsta hring. Mercedes menn áttu ekki góða ræsingu. Hamilton tók þó forystuna fljótt aftur, Rosberg var í fjórða sæti eftir fyrsta hring.
Pastor Maldonado á Lotus missti vélarafl á öðrum hring. Hann vill sennilega gleyma þessari helgi sem allra fyrst.
Ferrari menn unnu sig hratt upp í byrjun keppninnar. Kimi Raikkonen ræsti 16. og var orðinn 11. á fjórða hring. Vettel ræsti áttundi og var orðinn fimmti á þriðja hring.

Daniel Ricciardo hætti keppni á 20. hring, Red Bull bíllinn missti afl og nam staðar. Sýndar-öryggisbíll var notaður á meðan Red Bull bíllinn var færður í öruggt skjól. Leiðinlegur endir fyrir ökumanninn sem vann á Spa í fyrra.
Hamilton og Rosberg óku frekar áreynslulaust um miðbik keppninnar. Það virtist enginn geta ógnað þeim. Vettel var fastur út á brautinni til að koma í veg fyrir að Grosjean kæmist fram úr.
Carlos Sainz lagði Toro Rosso bíl sínum inn í bílskúr á hring 34. Hann var langt á eftir öðrum og þá var skynsamlegast að hætta keppni, spara vélina og gírkassann.
Rigningin ógnaði örlítið undir lok keppninnar en hafði ekki áhrif á keppnina. Baráttan um þriðja sætið varð afar spennandi á síðustu fimm hringjum keppninnar. Vettel og Grosjean glímdu og bilið var innan við ein sekúnda, Grosjan hafði því DRS til aðstoðar.
„Gefðu allt í botn, reynum að ná Vettel,“ voru skilaboðin sem Grosjean fékk þegar fjórir hringir voru eftir.
Daniil Kvyat á Red Bull fór hamförum undr lokinn og kom sér inn á meðal fimm efstu manna.
Löng lota á sama dekkjaganginum kostaði Vettel verðlaunasæti. Afturdekk sprakk á næst síðasta hring og færði Grosjean þriðja sæti.
Hér fyrir neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.