Fótbolti

Haukur Heiðar lagði upp sigurmark AIK í uppbótartíma

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur Heiðar var duglegur að leggja upp fyrir KR þegar hann var þar.
Haukur Heiðar var duglegur að leggja upp fyrir KR þegar hann var þar. vísir/daníel
Haukur Heiðar Hauksson lagði upp sigurmark AIK í uppbótartíma gegn Gefle í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en markið kom í uppbótartíma. Lokatölur 2-1 sigur AIK sem er í öðru sæti deildarinnar.

Nils-Eric Johansson kom AIK yfir á 41. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Gefle jafnaði svo metin á 75. mínútu, en þar var að verki Dioh Williams.

Leiknum virtist vera að ljúka með 1-1 jafntefli, en Johan Blomberg skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma eftir undirbúning frá Hauki Heiðari Haukssyni. Lokatölur 2-1.

Með sigrinum skaust AIK upp í annað sæti deildarinnar, en Gautaborg er í fyrsta sæti deildarinnar eftir 1-0 sigur á Åtvidaberg.

Sigurmarkið þar kom einnig í uppbótartíma, en það gerði Mikael Boman eftir sendingu frá Emil Salomonsson. Hjálmar Jónsson spilaði allan tímann í vörn Gautaborgar.

Gautaborg er með tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar, en Elfsborg getur jafnað þá að stigum með sigri á Kalmar síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×