Jóhann Skúlason og Garpur fra Højgaarden leiða forkeppnina í tölti þegar hún er rúmlega hálfnuð með einkunnina 8.07. „Gamli maðurinn“ Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum situr í þriðja sæti með einkunnina 7,93 og fast á hæla þeirra kemur Kristín Lárusdóttir á Þokka frá Efstu-Grund í fjórða sæti með einkunnina 7,77. Ef fram heldur sem horfir verða þrír bláir jakkar í úrslitum töltsins rétt fyrir hádegi á sunnudag.

Sigurbjörn reið á vaðið í morgun og var fyrstur allra keppenda í braut. Jóhann og Kristín voru einnig meðal þeirra fyrstu sem hófu keppni. Norðmaðurinn Niels Christian Larsen á Victor fra Diisa er annar með 8,00 og Caroline Poulsen frá Danmörku er í fimmta sæti.

Skoða má ráslista forkeppninnar í tölti hér auk þess að nálgast má dóma í keppninni hér. Bein útsending frá keppni á heimsmeistaramótinu er á heimasíðu keppninnar.