Þriðja daginn í röð er viðskiptavinum hleypt inn á staðinn í hollum og láta margir sig hafa það að bíða löngum stundum í röð eftir því að dyravörður hleypi þeim inn.

Judith frá Spáni var heldur ekki hrifin af þessum stað í hjarta Reykjavíkur: „Það sem okkur líkar við Ísland er að þar er ekki McDonald´s eða þannig staðir. Þetta er skrýtið. Ég hefði viljað eitthvað staðbundið, ekki eitthvað alþjóðlegt.“
Ný fyrirtæki góð fyrir hagkerfið
Eduard frá Rússlandi fagnaði því hins vegar að staðurinn hefði verið opnaður hér. „Opnun nýrra fyrirtækja hefur jákvæð áhrif á öll hagkerfi. Þetta er nýr vinnustaður og það er alltaf jákvætt þegar ný fyrirtæki eru opnuð.“
Gary og Jennifer frá Bandaríkjunum spurðu hvers vegna svo löng röð væri fyrir utan staðinn en þegar þau fengu að vita að það væri vegna opnunar Dunkin´ Donuts höfðu þau ákveðinn skilning á því. „Við erum frá San Francisco, þar er röð í allt.“

Sam frá Ástarlíu sagði opnun Dunkin´s Donuts valda sér vonbrigðum á vissan hátt og þetta sé ein af þeim neikvæðu áhrifum sem ferðamannaiðnaðurinn getur haft á lönd. Hann var þó snöggur að sjá björtu hliðarnar á þessu máli.
„Reykjavík fyrir mér er eins og margar aðrar evrópskar borgir en hefur svolitla sérstöðu og einstakan karakter. Ísland er fallegur staður og það er vegna náttúrunnar. Mín skilaboð til íslensku þjóðarinnar eru þau að það eru neikvæðar og jákvæðar hliðar á ferðamannaiðnaðinum. Er Dunkin´ Donuts jákvætt skref? Af hverju ekki? Hvað finnst mér því í raun um það? Ég held að ferðamannaiðnaðurinn hafi jákvæð áhrif á efnahaginn og hann færir okkur saman sem kemur okkur í skilning um að við erum ekki svo frábrugðin hvort öðru.“