Formúla 1

Bottas: Ferrari-orðrómur truflar

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Valtteri Bottas, veltir kannski fyrir sér hvernig rauður keppnisgalli fari honum.
Valtteri Bottas, veltir kannski fyrir sér hvernig rauður keppnisgalli fari honum. Vísir/Getty
Valtteri Bottas segir vangaveltur um mögulega framtíð hans hjá Ferrari trufla. Hann einbeitir sér að því að vinna sína fyrstu keppni með Williams.

Hinn 25 ára ökumaður hefur ítrekað verið orðaður við sæti landa síns, Kimi Raikkonen hjá Ferrari. Talið er að Ferrari sé tilbúið að greiða Williams til að losa Bottas undan samningi.

Bottas segist hins vegar vilja einbeita sér eingöngu að því að hjálpa Williams að vinna keppnir.

„Þegar maður er sestur í bílinn er maður lítið að velta fyrir sér einhverjum orðrómum,“ sagði Finninn ungi.

„Maður hugsar bara um aksturinn, en þegar maður er ekki í bílnum truflar það mann auðvitað að orðrómur sé á kreiki,“ bætti hann við.

Eftir að Sebastian Vettel vann sína aðra keppni á tímabilinu segist Bottas trúa því að Mercedes sé ekki alveg ósigrandi.

„Mercedes er mjög sterkt lið en Ferrari sýndi það í Búdapest að það er hægt að vinna þá. Maður á aldrei að segja aldrei. Okkar markmið eru ennþá að vinna keppnir. Mercedes bíllinn er góður en það getur allt gerst í kappakstri. Við verðum að hafa trú á því að tækifærin komi og nýta þau, það gæti gerst á þessu tímabili,“ sagði Bottas að lokum.


Tengdar fréttir

Allison: Raikkonen jafn fljótur og Vettel

Kimi Raikkonen hefur færri stig en liðsfélagi sinn hjá Ferrari, Sebastian Vettel. Ekki vegna þess að Finninn er hægari heldur vegna þess að Vettel gerir nánast aldrei mistök, samkvæmt tæknistjóra liðsins James Allison.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×