Fótbolti

Nýi Brassinn skoraði þrennu í fyrsta leik fyrir meistarana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Happafengur í Alberto fyrir Stjörnuna.
Happafengur í Alberto fyrir Stjörnuna. vísir/pjetur
Francielle Manoel Alberto stimplaði sig inn með látum í lið Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í kvöld þegar Íslands- og bikarmeistararnir lögðu Fylki, 4-0.

Alberto skoraði þrennu í sínum fyrsta leik á Íslandi, en hún hóf veisluna á 29. mínútu þegar hún kom meisturunum í 1-0.

Landsliðsbakvörðurinn Ólína G. Viðarsdóttir fékk rautt spjald á 38. mínútu og voru Fylkiskonur því marki undir og manni færri.

Eftir aðeins fjórar mínútur í seinni hálfleik bætti brasilíska landsliðskonan við öðru marki sínu og á 58. mínútu komst Stjarnan í 3-0 með sjálfsmarki gestanna.

Alberto innsiglaði svo þrennu sína á 67. mínútu leiksins. Lokatölur 4-0 fyrir Stjörnuna.

Stjarnan er áfram í öðru sæti deildarinnar en liðið er nú með 27 stig, stigi minna en topplið Breiðabliks sem á leik til góða.

Fylkir er í sjötta sætinu með 16 stig, en fyrir tapið í kvöld var Fylkir búið að vinna fjóra leiki í röð í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×