Fótbolti

Skoskir fjölmiðlar gera lítið úr gervigrasvelli Stjörnunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Andri Marinó
Eins og kom fram á blaðamannafundi fyrir leik Stjörnunnar og Celtic í gærkvöldi eru skoskir fjölmiðlar uppteknir af gervigrasvelli Stjörnunnar í Garðabæ, Samsung-vellinum.

Lýsingarnar í skoskum fjölmiðlum í dag eru í takti við stemninguna sem ríkti á fundinum í gær. Aðstöðunni er líkt við skosku utandeildina og vellinum sjálfum við sparkvelli þar sem fimm manna lið eigast við í „bumbubolta“.

„Stjarnan’s tiny 1,000 capacity ground is more like Cove Rangers than Glasgow Rangers and the playing surface is more like the Pitz than a modern 4G pitch,“ segir í umfjöllun Daily Record sem er einnig með viðtal við Jim Bett, fyrrum leikmann Ragners, Aberdeen, Vals og KR.

Jim býr enn hér á landi og er faðir þeirra Baldurs og Callum Bett, sem báðir hafa spilað í efstu deild á Íslandi. Baldur varð Íslandsmeistari fjögur ár í röð - með FH frá 2004 til 2006 og Val 2007.

„Þetta verður kannski svolítið menningarsjokk fyrir Celtic,“ sagði Jim. „Völlurinn í Garðabæ er ekki frábær. En Celtic þyrfti að klúðra sínum málum algjörlega til að komast ekki áfram.“

Stjarnan sló Motherwell úr leik í forkeppni Evrópudeildar UEFA í fyrra og gerði svo slíkt hið sama gegn Lech Poznan, áður en Inter hafði betur gegn Garðbæingunum.

„Þetta er gervigrasvöllur. Hann getur því ekki verið svo slæmur,“ sagði Ronny Deila, þjálfari Celtic, á blaðamannafundinum í gær. „Hann er betri en mjög, mjög slæmur grasvöllur. Við spiluðum á gervigrasi í fyrra. Það gæti reynst forskot fyrir okkur að spila á gervigrasi ef við náum okkar allra besta fram.“

„Þetta er allt saman hluti af því að spila í Evrópukeppni. Það er ekkert vandamál að spila á gervigrasi. Það er auðvelt að spila á slíkum völlum.“


Tengdar fréttir

Præst setur pressu á Silfurskeiðina

Michael Præst, fyrirliði Stjörnunnar, sagði skoskum blaðamönnum að stuðningurinn við Íslandsmeistarana úr stúkunni ætti eftir að koma þeim á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×