Erlent

Birta myndband af braki MH17 fljótlega eftir að henni var grandað

Atli Ísleifsson skrifar
298 manns fórust í árásinni fyrir sléttu ári síðan.
298 manns fórust í árásinni fyrir sléttu ári síðan.
Ástralska fréttastofan News Corp hefur birt myndband sem sýnir staðinn þar sem brak MH17, farþegavélar Malaysia Airlines, lenti í austurhluta Úkraínu eftir að hún var skotin niður fyrir ári síðan.

Á myndbandinu sést hvernig aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar, fara í gegnum eigur farþega og gera sér grein fyrir því að um farþegavél hafi verið að ræða en ekki úkraínska herþotu. „Þetta er farþegavél,“ heyrist í einhverjum segja í síma.

Í frétt SVT segir að myndbandinu hafi verið smyglað út úr búðum uppreisnarmanna í borginni Donetsk og komið í hendur þeirra aðila sem rannsaka málið fyrr í vikunni.

Myndbandið, sem er sautján mínútur í heild sinni, lítur út fyrir að hafa verið tekið upp fljótlega eftir að vélinni var grandað.

298 manns fórust í árásinni, þar af 38 ástralskir ríkisborgarar. Sérstakar minningarstundir verða haldnar í Ástralíu, Úkraínu og Hollandi í dag til að minnast þeirra látnu.

Brot úr myndbandinu má sjá að neðan, en rétt er að vara við myndunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×