Íslenski boltinn

Suðurlandsslagurinn fór í vító í fyrra en hvað gerist í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Komast Selfoss og Stjarnan áfram í bikarnum í kvöld?
Komast Selfoss og Stjarnan áfram í bikarnum í kvöld? Vísir/Pjetur
Fylkiskonur komust í gærkvöldi fyrst liða áfram í undanúrslit Borgunarbikars kvenna í fótbolta og í kvöld bætast tvö lið í hópinn þegar tveir leikir fara fram í átta liða úrslitum keppninnar.

Fyrri leikur kvöldsins er Suðurlandsslagur ÍBV og Selfoss á Hásteinsvellinum í Vestmannaeyjum sem hefst klukkan 17.30 en hálftíma síðast hefst leikur Íslands- og bikarmeistara Stjörnunnar á móti Þór/KA á Samsung-vellinum í Garðabæ.

ÍBV og Selfoss mættust einnig í átta liða úrslitum bikarsins í fyrra en þó fór leikurinn fram á heimavelli Selfossliðsins. Selfoss hafði þá betur eftir 4-2 sigur í vítakeppni þar sem markvörður Selfoss varði tvær síðustu vítaspyrnur Eyjakvenna.

Selfoss vann Fylki í undanúrslitunum og fór alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn í sögu félagsins en ÍBV-liðið hefur ekki komist í undanúrslit bikarsins í fimm ár.

Liðin mættust á Selfossi á maí og þar tryggði Hrafnhildur Hauksdóttir Selfossliðinu 3-2 sigur með marki á lokamínútu leiksins.

Stjörnukonur hafa ekki tapað bikarleik í tvö ár eða síðan að þær mættu liði Þór/KA síðast í undanúrslitum bikarsins 2013. Þór/KA vann þá 1-0 sigur í Garðabænum eftir sigurmark frá Söndru Maríu Jessen.

Stjörnuliðið hefur unnið fimm bikarleiki í röð síðan en nú mæta þar aftur norðankonum í kvöld. Þór/KA var ekki mikil fyrirstaða í deildarleik liðanna á dögunum þegar Stjarnan vann 5-1 sigur á sama stað. Nú er að sjá hvort mótstaðan verði eitthvað meira í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×