Erlent

Flóttamenn fylla Lesbos

Stefán Ó. Jónsson skrifar
vísir/epa
Gríska eyjan Lesbos er að fyllast af flóttamönnum að sögn löggæsluyfirvalda á eyjunni.

Talið er að um 1600 manns hafi numið land á eyjunni á laugardag og ekkert lát virðist vera á flóttamannastraumnum.

Lögreglan vinnur nú myrkranna á milli svo að halda megi utan um komurnar en hún megnar einungis að vinna úr 300 til 500 tilfellum á dag.

Fleiri flóttamenn komu til eyjarinnar í júní síðastliðnum en allt árið í fyrra ef marka má tölur frá Sameinuðu þjóðunum.

Alls námu 15 þúsund flóttamenn land á eyjunni í liðnum mánuði, í samanburði við 12187 allt árið 2014, en alls búa um 86 þúsund manns á Lesbos.

Flestir flóttamannanna lenda á norðurhluta eyjunnar sem næstur er Tyrklandi og þurfa að ganga um 25 kílómetra þvert yfir eyjunna svo að þeir geti sótt um landvistarleyfi og fyllt út tilskilda pappíra.

Fyllir flóttamennirnir þá út gefst þeim færi á að vera í landinu í allt að hálft ár.

Flóttamennirnir gista flestir í tjöldum sem búið er að reisa á yfirgefinni veðhlaupabraut eða í eina fangelsi eyjunnar.

Talið er að 1800 flóttamenn hafi látið það sem af er ári er þeir reyndu að komast yfir Miðjarðarhafið, tuttugufalt fleiri en á sama tíma í fyrra.

Leiðtogar Evrópusambandsríkja féllust á það í lok síðasta mánaðar að taka við um 40 þúsund flóttamönnum sem nú hafa hæli í Ítalíu og Grikklandi – sem segjast ekki megna lengur að taka við öllum þeim mikla fjölda sem nú flýr ófremdarástand í Sýrlandi, Lýbíu og öðrum stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×