Hvað kom fyrir og hvernig náði Hamilton aftur forystunni. Rigningin og allt annað sem máli skiptir eftir breksa kappaksturinn í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Christian Horner, keppnisstjóri Red Bull segir afar líklegt að Daniil Kvyat hefði blandað sér í baráttuna um verðlaunasæti hefði allt gengið upp.
Kvyat gleymdi sér eitt augnablik þegar fór að rigna, hann snerist á brautinni og missti af tækifærinu. Kvyat endaði sjötti.
„Þetta er í fyrsta skipti síðan í Mónakó sem mér finnst við vera með í keppninni. Við vorum að keppa við Ferrari og Kvyat tók lista vel fram úr Sebastian (Vettel) í Luffield beygjunni. Hefði Daniil ekki snúist hefði hann gert Vettel lífið leitt í baráttunni um þriðja sæti,“ sagði Horner.

„Þegar Lewis tók þjónustuhlé var ég nokkuð viss um að það væru mistök. Aðstæður voru enn á einhverjum mörkum, ég var í raun mjög kátur þegar hann fór inn,“ sagði Nico Rosberg sem tók skamm unna forystu þegar Hamilton tók hið fullkomlega tímasetta þjónustuhlé.
Eftir erfiða ræsingu var á brattan að sækja til fyrir báða Mercedes bílana. Williams var í fyrsta og öðru sæti eftir einkar góða ræsingu. Keppnisáætlun Williams og rigning komu sér vel fyrir Mercedes menn.
Toto Wolff liðsstjóri Mercedes sagði eftir keppnina að það hefði verið ákvörðun Hamilton að taka þjónustuhlé á þessum tímapunkti.
„Ég held þetta sé í fyrsta skipti sem ég tek rétta ákvörðun um tímasetningu þjónustuhlés, vegna þess að ég sá að rigningin var að aukast,“ sagði Hamilton.

Williams leiðin er hugtak sem Pat Symonds, tæknistjóri liðsins notaði fyrir ekki löngu síðan. Í því felst að ökumenn Williams liðsins fá alltaf að keppa og verður ekki meinað að taka fram úr hvor öðrum beri það við.
„Má ég taka fram úr, ég get það á seinni beina kaflanum,“ spurði Valtteri Bottas óþreyjufullur snemma í keppninni. Hann fékk neitun og missti þar með af tækifærinu. Hefði Bottas geta unnið upp forskot, já sennilega, það leit að minnsta kosti allt út fyrir það.
Bottas hafði DRS til afnota fyrir aftan liðsfélaga sinn Felipe Massa og gat notað kjölsog hans á beinum köflum brautarinnar. Finninn er þrátt fyrir það fullviss um að hann hefði byggt upp forskot sem numið hefði um hálfri sekúndu á hring.
Seinna kom þó að því að Williams leyfði ökumönnum sínum að keppa en þá var of seint að stinga Mercedes af, Hamilton tók þjónustuhlé og forystuna í einni svipan.

Fernando Alonso kveðst „ekkert kátur,“ með sitt fyrsta stig fyrir McLaren-Honda. Hann segist þó skilja þýðingu þess fyrir liðið.
„Það er ekki tími til að fagna ennþá því þetta er eina stigi sem ég hef náð í, en auðvitað er gott fyrir liðið að ná í stig. Það léttir aðeins lund margra eftir erfiða mánuði undanfarið.
Þessi úrslit eru staðfesting á að framfarir séu að eiga sér stað.

Orðrómur er á kreiki, hversu veikur sem hann er um að Aston Martin stefni á þáttöku í Formúlu 1 á næstu árum.
Hugmyndin á bakvið orðróminn er sú að Red Bull klæðist Aston Martin búning og noti þá Mercedes vélar en ekki Renault vélar. Þetta er talin vera eina færa leiðin fyrir Red Bull til að krækja í Mercedes vél. Þetta er áhugaverð hugmynd, svo mikið er víst.
Aðspurður vildi Christian Horner ekki slá orðróminn út af borðinu og Toto Wolff segir hurðina opna hjá Mercedes komist slíkur samningur á.
Hugsanlega hefur Aston Martin einnig áhuga á að taka yfir Force India eða Williams sem bæði nota Mercedes vél.