Íslenski boltinn

Mikilvægur sigur Fylkis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stjarnan og Fylkir unnu bæði leiki sína í kvöld.
Stjarnan og Fylkir unnu bæði leiki sína í kvöld. Vísir/Vilhelm
Stjarnan er einu stigi á eftir toppliði Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna eftir 3-1 sigur á botnliði Aftureldingar í kvöld. Blikar eiga þó leik til góða.

Afturelding komst reyndar yfir með marki Elise Kotsakis á 21. mínútu en Harpa Þorsteinsdóttir var aðeins tvær mínútur að jafna metin. Guðrún Karítas Sigurðardóttir kom svo Stjörnunni yfir áður en Harpa innsiglaði sigur Stjörnunnar í síðari hálfleik með öðru marki sínu í leiknum.

Fylkir vann mikilvægan sigur á KR, 3-1, í vesturbænum. Shu-o Tseng, Berglind Björg Þorvalsdóttir og Sara Lissy Chontosh úr víti skoruðu mörk Fylkiskvenna en Sigríður María Sigurðardóttir klóraði í bakkann fyrir KR stundarfjórðungi fyrir leikslok.

KR missti þar með af tækifæri til að komast upp fyrir Fylki sem er nú með tíu stig í sjöunda sæti deildarinnar. KR er í áttunda sætinu með sex stig.

Upplýsingar um markaskorara frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×